Slóveninn vann einvígið við Serbann

Luka Doncic skorar fyrir Dallas í leiknum í Denver í …
Luka Doncic skorar fyrir Dallas í leiknum í Denver í nótt. AFP

Slóveninn Luka Doncic og Serbinn Nikola Jokic háðu mikið einvígi í nótt og fóru báðir á kostum þegar Denver Nuggets tók á móti Dallas Mavericks í NBA-deildinni í körfubolta.

Dallas vann að lokum góðan útisigur eftir framlengingu, 124:117, en staðan var 109:109 eftir venjulegan leiktíma. Doncic og Jokic skoruðu 38 stig hvor en Doncic átti auk þess 13 stoðsendingar og tók 9 fráköst og Jokic var með 11 fráköst og 4 stoðsendingar.

Jokic tryggði Denver framlenginguna þegar hann jafnaði nokkrum sekúndubrotum fyrir lok venjulegs leiktíma. Doncic skoraði síðan níu af fimmtán stigum Dallas í framlengingunni.

Damian Lillard skoraði 39 stig fyrir Portland Trail Blazers sem vann Minnesota Timberwolves örugglega, 135:117.

LaMarcus Aldridge skoraði 28 stig fyrir San Antonio Spurs sem vann góðan útisigur á meisturum LA Lakers, 118:109. LeBron James var með 27 stig og 12 stoðsendingar fyrir Lakers.

Úrslitin í nótt:

Brooklyn - Philadelphia 122:109
Memphis - Cleveland 90:94
Denver - Dallas 117:124 (framlengt)
LA Lakers - San Antonio 109:118
Portland - Minnesota 135:117

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert