Fjórði sigurinn í röð

Tacko Fall treður í leik Boston gegn Washington í nótt.
Tacko Fall treður í leik Boston gegn Washington í nótt. AFP

Boston Celtics vann sinn fjórða sigur í röð í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt er liðið lagði Washington Wizards að velli, 116:107. Boston er nú í þriðja sæti í austurdeildinni með sjö sigra í fyrstu tíu leikjum sínum. Alls fóru tíu leikir fram í deildinni í nótt.

Heimamenn tóku forystuna strax í upphafi leiks og voru 66:47 yfir í hálfleik. Jayson Tatum skoraði 32 stig fyrir Boston og Jaylen Brown var með 27. Gestirnir söxuðu á forystuna eftir hlé með Bradley Beal í fararbroddi en hann skoraði 41 stig fyrir Washington sem mátti þó að lokum þola ósigur.

Stephen Curry fór upp um gír í síðari hálfleik til að hjálpa Golden State Warriors að sigra Los Angeles Clippers, 115:105. Curry skoraði 38 stig í leiknum en 24 af þeim komu í síðari hálfleik er heimamenn sneru taflinu sér í vil. Gestirnir voru 65:51 yfir í hálfleik og voru þeir Paul George og Kawhi Leonard atkvæðamestir í liði þeirra með 25 og 24 stig. Golden State kom til baka eftir hlé og nældi í sinn fimmta sigur á tímabilinu.

Úrslitin í nótt
Detroit Pistons - Phoenix Suns 110:105
Boston Celtics - Washington Wizards 116:107
New Orleans Pelicans - Charlotte Hornets 110:118
New York Knicks - Oklahoma City Thunder 89:101
Houston Rockets - Orlando Magic 132:90
Memphis Grizzlies - Brooklyn Nets 115:110
Milwaukee Bucks - Utah Jazz 118:131
Golden State Warriors - Los Angeles Clippers 115:105
Los Angeles Lakers - Chicago Bulls 117:115
Sacramento Kings - Toronto Raptors 123:144

mbl.is