Blóðtaka hjá Grindvíkingum

Sigtryggur Arnar Björnsson í leik á móti ÍR.
Sigtryggur Arnar Björnsson í leik á móti ÍR.

Landsliðsmaðurinn Sigtryggur Arnar Björnsson hefur samið við lið á Spáni og verður því ekki með Grindavík þegar keppni hefst á ný í Dominos-deildinni í körfuknattleik. 

Körfuknattleiksdeild Grindavíkur greinir frá þessu á samfélagsmiðlum. Sigtryggur Arnar hefur samið við Real Canoe í Madríd sem leikur í LEB Oro-deildinni á Spáni eða næstefstu deild.

Ljóst er að um blóðtöku er að ræða fyrir Grindvíkinga enda Sigtryggur Arnar atkvæðamikill leikmaður í sókninni. Hann kom til Grindavíkur árið 2018 eftir að hafa verið í lykilhlutverki með Tindastóli þegar liðið varð bikarmeistari. 

Fram kemur í tilkynningunni að leit sé hafin að leikmanni til að styrkja liðið í stað Sigtryggs Arnars. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert