Enn einn stórleikur Slóvenans unga – Lakers óstöðvandi á útivöllum

Luka Doncic reynir að komast fram hjá Terry Rozier, leikmanni …
Luka Doncic reynir að komast fram hjá Terry Rozier, leikmanni Charlotte Hornets, í leiknum í nótt. AFP

Slóveninn ungi Luka Doncic átti enn einn stórleikinn með Dallas Mavericks í nótt þegar lið hans vann útisigur á Charlotte Hornets, 104:93.

Doncic skoraði 34 stig og tók 13 fráköst og var hársbreidd frá þrefaldri tvennu því hann átti líka 9 stoðsendingar.

LeBron James skoraði 26 stig fyrir Los Angeles Lakers sem vann þægilegan útisigur á Oklahoma City Thunder, 128:99. Sjöundi útisigur meistaranna í jafnmörgum leikjum.

Damian Lillard skoraði 40 stig og tók 13 fráköst fyrir Portland Trails Blazers sem lagði Sacramento Kings í hörkuleik á útivelli, 132:126. CJ McCollum var með 28 stig og 10 stoðsendingar fyrir Portland og þeir eru fyrsti dúettinn sem nær tvöfaldri tvennu í sama leik og báðir gera meira en 25 stig frá árinu 1992. Þá léku Clyde Drexler og Terry Porter þann leik.

Grikkinn öflugi Giannis Antetoukounmpo var með þrefalda tvennu fyrir Milwaukee Bucks sem vann Detroit Pistons á útivelli, 110:101. Hann skoraði 22  stig, tók 10 fráköst og átti 10 stoðsendingar.

Nickeil Alexander-Walker setti persónulegt met þegar hann skoraði 37 stig fyrir New Orleans Pelicans gegn Los Angeles Clippers. Það dugði þó ekki því Clippers vann í Staples Center, 111:106.

Úrslitin í nótt:

Charlotte - Dallas 93:104
Detroit - Milwaukee 101:110
New York - Brooklyn 109:116
Minnesota - Memphis 107:118
Oklahoma City - LA Lakers 99:128
LA Clippers - New Orleans 111:106
Sacramento - Portland 126:132
Washington - Utah frestað
Boston - Orlando frestað
Phoenix - Atlanta frestað

LA Lakers er efst í Vesturdeildinni með 10/3 (sigur/tap), og grannarnir í LA Clippers eru næstir með 8/4.

Boston er með 7/3 á toppi Austurdeildarinnar og Milwaukee og Philadelphia eru bæði með 8/4.

mbl.is