Nets tekur mikla áhættu

Caris LeVert í leik gegn Denver.
Caris LeVert í leik gegn Denver. AFP

Ef leikmannaskiptin sem fyrirætluð eru varðandi James Harden og fleiri ganga í gegn hjá NBA-deildinni virðist Brooklyn Nets taka mikla áhættu varðandi framtíð liðsins. En í staðinn getur liðið átt möguleika á meistaratitlinum 2021 eða 2022. 

Fari leikmannaskiptin í gegn verða Harden, Kyrie Irving og Kevin Durant allir samningsbundnir Brooklyn Nets út tímabilið 2022. Talið er að bæði Harden og Durant fái í kringum 6 milljarða króna fyrir hvort tímabil. 

Brooklyn Nets fær Harden vitaskuld ekki til sín án þess að gefa eitthvað frá sér. Caris LaVert fer til Indiana Pacers en LaVert hefur skorað 18,5 stig í upphafi tímabilsins og skoraði 51 stig í leik gegn Boston í mars. Indiana lætur Victor Oladipo fara til Houston og Houston Rockets fær því snjallan leikstjórnanda í staðinn fyrir Harden. 

LaVert er 26 ára og hefði því getað verið framtíðarmaður hjá Brooklyn. Það sem meira er að samkvæmt nba.com mun Houston Rockets fá þrjá valrétti í 1. umferð frá Brooklyn Nets. Valrétti í nýliðavalinu 2022, 2024 og 2026. Það þykir ansi mikið en er þó ekki þrjú ár í röð. 

Eftir nokkur ár gæti lið Brooklyn Nets orðið veikt ef forráðamenn félagsins halda ekki vel á spöðunum en Houston Rockets gæti verið í stöðu til að byggja upp sterkt lið til framtíðar. 

Kyrie Irving er reyndar ekki nema 28 ára en Harden er 31 árs og Durant 32 ára. 

Victor Oladipo er á leið til Houston.
Victor Oladipo er á leið til Houston. AFP
mbl.is