Finninn vann einvígið við Slóvenann

Lauri Markkanen var sterkur í liði Chicago Bulls í kvöld.
Lauri Markkanen var sterkur í liði Chicago Bulls í kvöld. AFP

Tveir af efnilegustu körfuboltamönnum Evrópu, Lauri Markkanen frá Finnlandi og Luka Doncic frá Slóveníu, háðu einvígi með liðum sínum, Chicago Bulls og Dallas Mavericks, í NBA-deildinni í kvöld.

Chicago sótti lið Dallas heim og vann góðan útisigur, 117:101, og það var því sá finnski sem fagnaði þó tölfræði Slóvenans hefði verið hreint ótrúleg.

Doncic, sem hefur farið á kostum með Dallas í vetur, var með risaþrennu, 36 stig, 16 fráköst og 15 stoðsendingar.

Markkanen var aðalmaður hjá Chicago og náði tvöfaldri tvennu en hann skoraði 29 stig og tók 10 fráköst.

Fyrr í kvöld vann New York Knicks yfirburðasigur á Boston Celtics á útivelli í slag Austurstrandarliðanna, 105:75. Julius Randle var með 20 stig og 12 fráköst fyrir New York en Jaylen Brown skoraði 25 stig fyrir Boston.

Úrslitin eru óvænt miðað við gengi liðanna í vetur en Boston hafði unnið átta af fyrstu ellefu leikjum sínum og er í öðru  sæti Austurdeildar. New York er hinsvegar aðeins búið að vinna sex leiki af fjórtán og er í níunda sæti.

mbl.is