Eins og draugasena án áhorfenda

Staples Center er glæsilegt íþróttamannvirki en þar er leikið án …
Staples Center er glæsilegt íþróttamannvirki en þar er leikið án áhorfenda þessa mánuðina. AFP

Ég hef haft þá ánægju að heimsækja Staples Center íþróttahöllina hérna í miðbæ Los Angeles oftar en ég man undanfarna tvo áratugi – oftast á NBA leiki í vinnu minni sem NBA-skríbent þessara síða.

Það er ávallt ákveðin eftirvænting þegar ég ek inn í miðbæinn á leið til hallarinnar. Um leið og komið er að bílastæðinu skammt norðan hennar, sér maður strax mikið af fólki á leið á leikinn - eða á öldurhús og matsölustaði LA Live samstæðinnar beint á móti höllinni - enda hef ég haft þann sið að mæta snemma á þessa viðburði til að upplifa reynsluna fyrir utan höllina áður en að ég sæki blaðamannapassann minn og fæ mér kvöldmat í matsal fréttafólks fyrir leik.

Það er viss ánægja að fylgjast með stuðningsfólki Lakers- eða Clippers frá svölum hallarinnar við megininnganginn og að horfa á allt mannlífið á torgi LA Live. Þetta er hluti af reynslunni að fara á slíka viðburði. Fólk vissulega hegðar sér ólíkt þegar það fer á hópviðburði, en fyrir mig er ávallt gaman að fylgjast með mannlífinu á staðnum.

Enginn á gangi

Eftir að hafa farið yfir lýsingu á forvörnum NBA á leikum þessa keppnistímabils, tók ég þá ákvörðun að fá blaðamannapassa á leik LA Lakers og San Antonio Spurs 7. janúar til að upplifa sjálfur NBA-leik án áhorfenda.

Þetta var ein af þessari reynslu þar sem maður segir eftirá að kannski hefði verið best að láta ólátna. Ekki vegna áhættunnar af kórónufaraldnum, þótt ávallt sé skynsamlegt að hafa forvarnir í fyrirrúmi, heldur vegna upplifunarinnar sjálfrar.

Ég hafði gert mér grein að þessi heimsókn í Staples Center myndi verða ólík öllum öðrum og að fátt yrði af fólki þar sem faraldurinn er á alvarlegu stigi hér í Los Angeles-sýslu, en eftir að ég tók hægri beygju af 110 hraðbrautinni að bílastæðinu var ekki manneskju að sjá á gangi, ekki einu sinni þeir heimilislausu að betla pening í þessu landi allsnægtanna.

Hin venjulega stemming sem er ávallt einhvernveginn „í loftinu“ þegar ég geng til hallarinnar var gjörsamlega fjarverandi. Það var ekki laust við að maður fylltist tómleikakennd að sjá allt svæðið í kringum Staples og LA Live – sem margir áhorfendur hafa eflaust séð í sjónvarpsútsendingum af leikjum héðan undanfarin ár – tómt að fólki þótt myndskeið væru á fullu á skermum LA Live, rétt eins og að ekkert hefði gerst.

Nú er tómlegt fyrir utan Staples Center á leikdegi
Nú er tómlegt fyrir utan Staples Center á leikdegi AFP

Skynfærin rugluð

Eftir að ég fékk passann minn og fór inn í höllina fékk ég næstu tómleikakenndina. Innandyra er ávallt mikið um mannlíf og hávaðinn eins og í stóru fuglabjargi, en í þetta sinn var einungis fámennt starfslið hallarinnar að sinna sínum störfum. Öll lykt af bjór og mat var fjarverandi og skynfærin hreinlega rugluð.

Ég hugsaði um all það verkafólk sem hefur misst vinnu sína í þessu þjónustustörfum hallarinnar, enda erfitt að skilja þá vitund frá verkamannauppeldinu.

Þegar inn í salinn kom fannst fyrst eins og allt væri að venju. Þar sem ég mæti venjulega áður en að flestir áhorfendur fara inn í salinn frá göngum hallarinnar, er ég vanur að sjá hann með fáum áhorfendum. Leikmenn voru að hita upp, fréttafólkið var á staðnum, hip-hop tónlistin var á fullu og hlutirnir litu út eins og venjulega að mörgu leyti. Eftir að hafa dregið andann og litið í kringum mig meira sá ég þó að ýmislegt var öðruvísi eins og margir hafa séð á sjónvarpsútsendingum af NBA leikjum þessa keppnistímabils.

Það er miklu meira autt svæði við jaðar vallarins án áhorfenda og fyrir utan ritara og tímaverði, auk hins fræga þul Lakers, Larry Tanter, er ekkert fréttafólk og annað starfslið nálægt vellinum í kringum leikmenn. Við fréttafólkið höfðum verið færð á borð á gangvegi hallarinnar fyrir ofan neðstu „skálina“ eins og ég kalla sætin neðst í höllinni.

Tómir gangar í Staples Center á leikdegi.
Tómir gangar í Staples Center á leikdegi. mbl.is/Gunnar Valgeirsson

Enginn faðmar

Ekki var aðeins mun færra um fréttafólk og venjulega, heldur var andinn sjálfur allt öðruvísi. Þegar ég mæti venjulega í matsal fréttafólks fyrir leiki, er mikið um bros og umræðu, og fólk faðmandi hvert annað (við föðmum hér í LA!). Á göngum hallarinnar til búningsherbergja liðanna má líka sjá fréttafólk eiga viðræður við innanbúðarfólk liðanna og fyrrum leikmenn. Þar halda einnig þjálfarar liðanna fund sinn með fréttafólki fyrir leikinn.

Í stað þess vorum við öll sýnilega meðvitandi um Covid-reglur staðarins og sátum í staðinn við okkar borð fjarri liðunum og neðri göngum hallarinnar – öll í viðeigandi fjarlægt frá hvert öðru.

Þetta var eins og að mæta í skólabekk seint á skólaárinu og geta ekki haft venjuleg samskipti.

En vinnan hélt áfram.

Spurs vann kappleikinn sjálfan 118:109, en fáir voru mikið að hugsa um það eftir á. Rétt eins og flestir landsmenn, var hugurinn annarsstaðar daginn eftir tilraunina til valdaráns í höfuðborginni.

Engir áhorfendur eru í sætunum í Staples Center en stórir …
Engir áhorfendur eru í sætunum í Staples Center en stórir borðar í þeirra stað. AFP

Áhorfendur eru allt

Það er ávallt gaman að upplifa stemminguna í kringum stuðningsfólks liðanna í Staples Center og öðrum íþróttaviðburðum sem ég fer á hér vestra, og eftir heimsóknina á þennan leik er mér ljóst að án þeirra er þessi upplifun alfarið önnur.

Án áhorfenda er eiginlega engin stemming. Leikmennirnir í NBA reyna sitt besta að hvetja hvorn annan og byggja upp stemminguna þegar byrjunarliðin eru tilkynnt, en um leið og allur hávaðinn í hátölurum hallarinnar dvínar, finnur maður strax fyrir fjarveruna í áhorfendasvæðunum.

Leikmenn hafa haft á orði undanfarið í viðtölum að þeir hafi tekið eftir því hversu þessi frægi „heimavallayfirburður“ (home field advantage) sem flest íþróttafólk og íþróttaeðjótar þekkir svo vel, sé varla nú til staðar. Í þessum leik varð mér strax ljóst í upphafi að það vantaði allan neista í leik Lakers. Það sást best í varnarleiknum, sem er venjulega styrkur liðsins nú.

Með fullt hús af áhorfendum, hefðu þeir getað gert lykilmuninn í að ýta hressilega við bakið á heimamönnum í seinni hálfleiknum. Ég hef séð þetta oftar en ég man í þessari höll. Bæði í þeim þremur meistaratitlum sem Kobe og Shaq unnu 2000 – 2002 og síðan meistaratitlana tvo 2009/10. Í sjöunda leik Lakers og Celtics 2010 voru Lakers undir næstum allan leikinn, en í seinni hálfleiknum „ýttu“ áhorfendur heimaliðinu í forystuna í lokaleikhlutanum í þessum hreina úrslitaleik um titilinn.

Á þeim degi skalf höllin af öllu brjálæðinu.

Þolinmæði, en söknuður

Kórónuveiran hefur breytt nánast öllu í okkar lífi undanfarið árið og þetta er einungis eitt dæmið um það.

Fyrir utan að flytjast til Nýja-Sjálands, virðist svo að við íþróttaunnendur, sem og aðrir borgarar heimsins, munum þurfa að sýna þolinmæði áfram á meðan að vísindin og aðrar þjóðfélagsstofnanir nái tökum á ástandinu.

Í víðara samhengi er fórnin sem íþróttaunnendur og keppendur þurfa nú að færa, smærri og ekki eins mikilvæg en það sem heilbrigðisstarfsfólk og aðrir þegnar þurfa að bera.

Við getum samt saknað áhorfendasvæðanna.

„Við mótmælum allir“

Daginn sem Trump tók við embættinu í janúar 2017 skrifaði ég grein á þessar síður um áhrif íþrótta á þeim tímapunkti („Íþróttir á tímum átaka“) þar sem ég var að reyna að skýra af hverju kjósendur hefðu kosið hann sem forseta. Ég hafði þar á orði að reiði væri ríkjandi andlegt ástand stuðningsfólk hans og að íþróttir gætu verið hlutur til að binda fólk saman á þessum tímum sundrunar.

Sú ósk mín flaug út um gluggann um daginn.

Eftir árás hvítra kynþáttahatara og stuðningsfólk Trump forseta á þinghúsið í höfuðborginni nýlega, var ekki laust við að margir borgarar væru enn í losti eftir þann hrylling. Það átti einnig við um leikmenn og þjálfara í NBA deildinni, sem og víðar í íþróttaheiminum hér vestra.

Leikmenn LA Lakers og SA Spurs sameinast fyrir leik liðanna …
Leikmenn LA Lakers og SA Spurs sameinast fyrir leik liðanna á dögunum. AFP

Fyrir NBA leik LA Lakers og San Antonio Spurs um daginn, mynduðu leikmenn, þjálfarar og dómarar leiksins hring og bundu handleggi saman þegar þjóðsöngurinn var leikinn. Með þessu vildu bæði lið sýna stuðning við lýðræðishugmyndir þjóðarinnar, því það sem gerðist í höfuðborginn daginn áður var ekkert annað en tilraun til valdarráns þar sem markmiðið var að stöðva formlega samþykkt þingsins á kosningaúrslitunum. Tilraun múgsins var að skipta út vilja kjósenda í kosningunum fyrir vilja sjálfselskandi brjálæðings í stöðu forsetaembættisins.

Slíkt samræmist augljóslega ekki lýðræði.

Ég ritaði lærða grein um mótmæli NBA leikmanna síðasta sumar á þessum síðum þá, og ljóst er að leikmenn eru enn samstíga um að styðja lýðræði og réttlæti eins og þá.

Gregg Popovich, hinn skeleggi þjálfari San Antonio Spurs
Gregg Popovich, hinn skeleggi þjálfari San Antonio Spurs AFP

Popovich með fingurinn á púlsinum eins og venjulega

Öll viðtöl fréttafólks við leikmenn og þjálfara er nú gert í gegnum Zoom. Fyrir leikinn var Gregg Popovich, hinn skarpi þjálfari Spurs, spurður um hvað honum hefðu fundist um valdarránstilraunina daginn áður. „Borgarar geta haft hvaða skoðun sem þeir vilja, en það sem við sáum í gær einfaldlega berskjaldaði augljóst kynþáttamisréttið sem er synd þjóðarinnar. Fólkið virtist ekkert hrætt við að ýta því beint í andlit okkar og hver sá sem reynir að hunsa það ætti að skammast sín. Því er ekki hægt að neita.“

„Forsetinn er hættulegur lýðræðinu í okkar landi, þótt hann sé vanhæfur í starfinu. Valdagræðgi þeirra þingmanna sem studdu forsetann í þessum fáránlegu ásökunum um stolna kosningu eru verri en forsetinn, því þeir vita að minnsta kosti betur. Það eina sem við getum nú gert er að reyna að koma forsetanum úr embættinu sem fyrst,“ bætti hann við.

Ekki er hægt að rugla Popovich við einhvern eðjóta sem mengar samfélagsmiðla á þessum tímum. Hann var fjögur ár í herháskóla Loftersins og síðan fimm ár hernum sjálfum og hafði augun á starfsferil í CIA leyniþjónustunni áður en hann ákvað að fara í körfuknattleiksþjálfun. Hann lét þjóðfélagsmál lengi vera í samskiptum sínum við fréttafólk sem þjálari Spurs, en eftir að Trump var kosinn forseti hefur hann verið mjög gagnrýnn á ólýðræðislegan hugsunarhátt forsetans.

Vinur Popovich, Mike Krzyzewkski, þjálfari Duke háskólans í körfuknattleik og landsliðs Bandaríkjanna, studdi vin sinn í viðtölum þremur dögum seinna. Krzyzewkski hefur nánast sömu tengsl við herinn og Popovich og hefur stutt Repúblikanaflokkinn áður.

„Þetta var versti dagurinn í lífi mínu sem borgari og ég er 73ja ára. Miðvikudagurinn var hryllilegur. Þetta var hreinlega uppreisn gegn meginstoðum þjóðarinnar. Ímynd lýðræðisins í okkar landi er Capitol byggingin og við leifðum þeirri ímynd að vera troðið og spítt á.“

„Þetta er ekki spurning um hvort þú ert Repúblikani eða Demókrati, þetta er spurning um að vera Ameríkani,“ bætti hann við. „Við verðum nú að styðja við megingildin sem voru grundvöllurinn að þjóð okkar. Bakgrunnur minn í hernum sýndi mér mikilvægi liðs-samvinnunar. Við verðum reyna að hugsa þannig, sérstaklega í þessum faraldri.“

Þessir menn endurspegla meirihluta þjóðarinnar, þar á meðal meirihluta Repúblikana, í því að fordæma valdaránstilraunina og styðja megingildi þjóðarinnar varðandi lýðræði.

Þetta eru vissulega umbrotatímar hér í landi og munu eflaust vera eitthvað áfram, en þjóðin bindur nú vonir sínar við nýja ríkisstjórn þar sem hæft fólk verður nú í hæstu embættum framkvæmdavalsins og maður sem hugsar ekki bara um sjálfan sig mun taka forsetaembættinu.

Það mun taka tíma að gróa sárin á þjóðinni, en í millitíðinni situr Trump og setur sinn fræga stút á munninn á meðan að hann reynir að finna leið til að riðla þjóðfélaginu – rétt eins og Joker í Batman-mynd

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert