Einn leikur í viðbót á þessu dvergaliði

Darri Freyr Atlason, þjálfari KR.
Darri Freyr Atlason, þjálfari KR. Eggert Jóhannesson

Darri Freyr Atlason, þjálfari KR í körfuknattleik karla, sagði 15 stig sem liðið skoraði í röð í þriðja leikhluta hafa lagt grunninn að 113:108 endurkomusigrinum gegn Hetti í Dominos-deildinni í kvöld.

„Þessi leikur var sérstakur að mörgu leyti. Það var aðeins of mikið skorað, allavega á okkur!“ sagði Darri í samtali við mbl.is eftir leik.

KR var 10 stigum undir í hálfleik, og lenti mest 16 stigum undir, 55:71, snemma í þriðja leikhluta. Þá tók liðið sig til og skoraði 15 stig í röð. „Mér fannst við ná að koma þokkalega einbeittir til baka eftir að hafa verið slegnir, í rauninni aftur, í byrjun þriðja leikhluta.

Við náðum að stoppa í vörninni eftir það og þá náðum við að hlaupa, og þá er mjög erfitt að dekka okkur, sérstaklega þegar uppstillingarnar á leikmönnunum eru eins og þær voru í þessum leik. Þetta 15:0 skrið okkar í þriðja leikhluta bjó bara til þennan sigur,“ sagði hann.

Darri sagði lið Hattar ekki hafa komið sér á óvart í leiknum. „Nei, þeir voru bara góðir í fyrri hálfleik og voru svolítið að finna veikleika okkar og virkilega ýta á þá. Við vorum kannski svolítið seinir að gera þessa varnarbreytingu, að færa Jakob [Örn Sigurðarson] niður á [Matej] Karlovic, sem við gerðum í seinni hálfleik. Það breytti svolítið miklu fyrir okkur.“

Hann nefndi sérstaklega Sigurð Gunnar Þorsteinsson í liði Hattar, en leikmenn KR áttu í erfiðleikum með hann í baráttunni undir körfunni. „Siggi er bara frábær og hans körfuboltagreind er stórkostlega vanmetin. Hann var okkur erfiður í 40 mínútur.“

Í gær tilkynnti KR um að liðið hafi samið við 203 sentímetra háan framherja, Brandon Nazione. Aðspurður um hvenær hann kæmi inn í liðið sagði Darri:

„Hann verður sennilega í sóttkví þegar við verðum á Akureyri og kemur þá inn í leikinn á móti Þór Þorlákshöfn. Við hlökkum mikið til að fá hann. Við ætlum að reyna að þvinga fram einn sigur í viðbót á þessu dvergaliði áður en við breytum aðeins!“

mbl.is