Naumur sigur KR-inga á nýliðunum

Michael Mallroy úr Hetti og Matthías Orri Sigurðarson úr KR …
Michael Mallroy úr Hetti og Matthías Orri Sigurðarson úr KR í baráttu um boltann í Vesturbænum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

KR vann annan leik sinn í röð í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Dominos-deildinni, þegar liðið vann nauman sigur gegn botnliði Hattar, 113:108, í æsispennandi leik.

Höttur byrjaði leikinn betur og virtust leikmenn liðsins áfjáðir í að ná í sinn fyrsta sigur á tímabilinu. Höttur komst snemma í 11:6 og mest komst liðið í 13 stiga forystu í fyrsta leikhluta, 28:15, en KR lagaði stöðuna aðeins og minnkaði muninn niður í 6 stig. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 32:26.

Höttur hélt uppteknum hætti í öðrum leikhluta þar sem KR elti og Höttur bætti við forystu sína, en liðið komst aftur mest í 13 stiga forystu, 61:48, áður en KR-ingar löguðu stöðuna aðeins áður en leikhlutinn var úti. Staðan í hálfleik 61:51.

Í síðari hálfleik tóku KR-ingar að sækja í sig veðrið. Eftir að hafa lent 16 stigum undir, 55:71, skoraði KR næstu 15 stig og voru skyndilega aðeins einu stigi undir, 70:71. Það sem eftir lifði þriðja leikhluta var leikurinn hnífjafn og var KR einu stigi undir að honum loknum, 86:87.

KR-ingar héldu áfram þar sem frá var horfið í fjórða leikhluta og skoruðu fyrstu 9 stig leikhlutans, staðan orðin 95:87. Hattarmenn voru þó ekki á því að gefast upp og náðu að minnka muninn í eitt stig, 99:98, um miðbik leikhlutans. Eftir það var allt í járnum og skiptust liðin á að taka forystuna. Eftir að Höttur komst í 105:106 skoraði KR næstu sex stig og komst þar með í 111:106. KR-ingar náðu að halda í þessa fimm stiga forystu og unnu að lokum 113:108.

Í fyrri hálfleik áttu KR-ingar í erfiðleikum með varnarleik Hattar og náði til að mynda Ty Sabin einungis að skora 7 stig í hálfleiknum.

Í síðari hálfleik var allt annað að sjá til KR-inga og munaði þar miklu um að losnaði meira um Sabin í sóknarleik liðsins, sem skoraði að lokum 29 stig í leiknum. Þá skoraði Matthías Örn Sigurðarson 23 stig og Brynjar Þór Björnsson 19 stig, þar af fimm þriggja stiga körfur.

Höttur var allan tímann inni í leiknum og hefði hæglega getað náð í sinn fyrsta sigur á tímabilinu og var Michael Mallroy öflugur með 29 stig, auk þess sem Sigurður Gunnar Þorsteinsson skoraði 22 stig og olli leikmönnum KR vandræðum í barningnum undir körfunni. Einnig skoraði Matej Karlovic 21 stig.

KR er með sigrinum komið upp í efri hluta deildarinnar með 4 stig eftir fjóra leiki en Höttur situr sem fastast á botni deildarinnar án stiga.

Gangur leiksins: 6:8, 11:15, 15:25, 26:32, 35:41, 43:50, 46:54, 51:61, 55:69, 67:71, 79:81, 86:87, 95:87, 99:95, 105:103, 113:108.

KR: Tyler Sabin 29, Matthías Orri Sigurðarson 23/5 fráköst/7 stoðsendingar, Brynjar Þór Björnsson 19, Jakob Örn Sigurðarson 13, Eyjólfur Ásberg Halldórsson 12/4 fráköst, Björn Kristjánsson 9/7 fráköst, Alexander Óðinn Knudsen 6, Veigar Áki Hlynsson 2.

Fráköst: 20 í vörn, 3 í sókn.

Höttur: Michael A. Mallroy ll 29/4 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 22/5 fráköst, Matej Karlovic 21/4 fráköst, Dino Stipcic 17/10 fráköst/8 stoðsendingar, Eysteinn Bjarni Ævarsson 11/7 fráköst/7 stoðsendingar, David Guardia Ramos 8.

Fráköst: 23 í vörn, 9 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Helgi Jónsson, Bjarki Þór Davíðsson.

Áhorfendur: 50

KR 113:108 Höttur opna loka
99. mín. skorar
mbl.is