Alltaf jafn sætt að vinna Njarðvík

Valur Orri Valsson í leik með Keflavík.
Valur Orri Valsson í leik með Keflavík. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Valur Orri Valsson, leikmaður Keflavíkur í körfuknattleik, sagði það alltaf sérstaklega sætt að vinna Njarðvík, en Keflavík vann erkifjendur sína og nágranna í Dominos-deildinni í Njarðtaksgryfjunni í Njarðvík í kvöld, 90:77.

„Það er bara eins og alltaf þegar maður kemur í þessa leiki að maður vill vinna þá. Þetta var svolítið skrítið með enga áhorfendur en það er alltaf jafn sérstaklega sætt að vinna Njarðvík,“ sagði Valur Orri í samtali við mbl.is eftir leik.

Hann var að mestu ánægður með leik sinna manna. „Mér fannst leikurinn góður í kannski 35 mínútur. Það voru fimm mínútur í þriðja leikhlutanum sem voru dálítið erfiðar. Þá fórum við út úr því sem við vorum að gera og hleyptum þeim inn í þetta aftur eftir að hafa verið komnir 20 stigum yfir.

Við byrjuðum leikinn sterkt og enduðum hann sterkt. Við þurfum bara að læra að halda forskotinu þegar við erum komnir með það.“

Keflvíkingar eru á toppi deildarinnar með fullt hús stiga að loknum fjórum umferðum. Valur telur liðið til alls líklegt. „Mér líst bara mjög vel á framhaldið. Það eru þrír leikir búnir eftir Covid pásuna og við erum ennþá svona að koma okkur í gang.

Við erum búnir að vera að spila flottan körfubolta og ég held að ef það gengur þannig áfram séum við til alls líklegir,“ sagði hann.

Valur Orri er sonur Vals Ingimundarsonar, goðsagnar í körfuknattleik hjá erkifjendunum í Njarðvík. Valur Orri segir það þó ekki breyta því að faðir sinn styðji hann ávallt fyrst og fremst.

„Hann náttúrulega bara heldur með mér. Það er örugglega skrítið fyrir hann að sjá mig vera að fagna á móti hans gamla liði og finni aukna orku í þessum leikjum. Hann er náttúrulega gamall Njarðvíkingur en hann heldur alltaf með mér,“ sagði Valur Orri að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert