Keflvíkingar aftur á toppinn eftir sigur í grannaslagnum

Antonio Hester og Deane Williams eigast við í leiknum í …
Antonio Hester og Deane Williams eigast við í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Keflavík vann góðan 90:77 sigur á erkifjendum og nágrönnum sínum í Njarðvík í Njarðtaksgryfjunni í Njarðvík í Dominos-deild karla í körfuknattleik í kvöld. Keflvíkingar eru þar með komnir aftur á topp deildarinnar með fullt hús stig.

Keflvíkingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust í 7:0. Mest náðu Keflvíkingar 11 stiga forystu í leikhlutanum þegar þeir komust í 24:13. Njarðvíkingar náðu þó að laga stöðuna áður en fyrsti leikhluti var úti og minnkuðu muninn í 24:18.

Megnið af öðrum leikhluta var hnífjafn þar sem liðin skiptust á að skora. Keflvíkingar leiddu þannig með fjórum til sex stigum stóran hluta leikhlutans en hertu tökin enn frekar undir lok hans og fóru með 12 stiga forystu í hálfleik, 53:41. Litháíski miðherjinn Dominykas Milka var afar drjúgur fyrir Keflavík í fyrri hálfleiknum og skoraði 21 stig.

Í þriðja leikhluta bættu Keflvíkingar enn frekar í og þegar leikhlutinn var rétt rúmlega hálfnaður var liðið komið í 20 stiga forystu, 67:47. Njarðvíkingar tóku þá leikhlé og það virkaði sem vítamínsprauta því eftir það skoruðu þeir 15 stig á móti tveimur hjá Keflvíkingum og minnkuðu þar með forystuna niður í 7 stig. Staðan 69:62 að loknum þriðja leikhluta.

Njarðvíkingar komu ákveðnir til leiks í fjórða og síðasta leikhluta og voru búnir að minnka muninn í þrjú stig, 74:71, þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Eftir það hertu Keflvíkingar tökin til muna og skoruðu næstu 16 stig. Njarðvíkingar voru að sama skapi heillum horfnir á ögurstundu og skoruðu ekki stig í tæpar 7 mínútur í fjórða leikhlutanum. Keflvíkingar sigldu að lokum flottum sigri í höfn og enduðu leikar 90:77.

Með sigrinum fer Keflavík sem áður segir aftur á topp Dominos-deildarinnar við hlið Grindavíkur, en bæði lið eru með fullt hús stiga; 8 stig að loknum fjórum umferðum. Njarðvík er um miðbik deildarinnar með 4 stig.

Stigahæstur hjá Keflvíkingum var Milka með 32 stig, en hann náði tvöfaldri tvennu þar sem hann tók einnig heil 19 fráköst. Deane Williams var sömuleiðis öflugur og skoraði 25 stig ásamt því að taka sjö fráköst.

Stigahæstur Njarðvíkinga var Rodney Glasgow Jr. með 23 stig og sex fráköst. Þá skoraði Antonio Hester 19 stig og Mario Matasovic náði tvöfaldri tvennu; hann skoraði 16 stig og tók 11 fráköst.

Njarðvík - Keflavík 77:90

Njarðtaks-gryfjan, Dominos deild karla, 22. janúar 2021.

Gangur leiksins:: 3:9, 11:16, 11:21, 18:24, 22:31, 33:35, 37:41, 41:53, 47:57, 47:65, 52:67, 62:69, 67:73, 71:77, 71:86, 77:90.

Njarðvík: Rodney Glasgow Jr. 23/6 fráköst, Antonio Hester 19, Mario Matasovic 16/11 fráköst, Jon Arnor Sverrisson 8, Adam Eidur Asgeirsson 5, Logi Gunnarsson 3, Veigar Páll Alexandersson 2, Ólafur Helgi Jónsson 1.

Fráköst: 24 í vörn, 6 í sókn.

Keflavík: Dominykas Milka 32/19 fráköst, Deane Williams 25/7 fráköst, Calvin Burks Jr. 12, Valur Orri Valsson 11, Hörður Axel Vilhjálmsson 10/7 stoðsendingar.

Fráköst: 27 í vörn, 8 í sókn.

Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Eggert Þór Aðalsteinsson, Jóhann Guðmundsson.

Njarðvík 77:90 Keflavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert