Fær ekki að dæma eftir að hafa reynt við leikmann

Frá leik Dominos-deild kvenna um síðustu helgi. Myndin tengist málinu …
Frá leik Dominos-deild kvenna um síðustu helgi. Myndin tengist málinu ekki. Mbl.is/ Íris Jóhannsdóttir

Reynslumikill körfuknattleiksdómari hefur ekkert dæmt á Íslandsmótinu að undanförnu í kjölfar þess að hann átti rafræn samskipti við leikmann í úrvalsdeild kvenna, Dominos-deildinni.

Atvikið mun hafa átt sér stað í febrúar á síðasta ári, eða skömmu áður en keppni var blásin af vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

DV skýrir frá þessu og Hannes S. Jónsson formaður Körfuknattleikssambands Íslands staðfestir í fréttinni að umræddur dómari sé ekki lengur „virkur í niðurröðun dómaranefndar“. 

Haft er eftir Hannesi að það sé ekki innbyggt í ferla varðandi störf dómara að setja einhvern í bann fyrir fullt og allt en þetta sé staðan núna varðandi þennan tiltekna dómara og ekkert bendi til þess að hún muni breytast. 

DV segir ennfremur: Að sögn Hannesar fólu umrædd rafræn samskipti í sér að dómarinn var að stíga í vænginn við leikmanninn sem þótti nálgunin óþægileg og kvartaði. Hannes segir að samskipti af þessu tagi af hálfu dómara við leikmann séu óeðlileg og ekki liðin innan KKÍ. Þess vegna sé umræddur dómari ekki lengur á lista yfir tiltæka dómara í leikjaniðurröðun sambandsins.

mbl.is