Sóknarlína Brooklyn fór á kostum – Utah óstöðvandi

Kyrie Irving og James Harden léku afar vel fyrir Brooklyn …
Kyrie Irving og James Harden léku afar vel fyrir Brooklyn í nótt. AFP

Fimm leikir fóru fram í gærkvöldi og í nótt í NBA-deildinni í körfuknattleik. Brooklyn Nets sýndi fram á gífurlegan styrk sinn í sóknarleiknum í sigri gegn Golden State Warriors. Þá heldur Utah Jazz áfram að vinna.

Brooklyn vann 134:117 sigur gegn Golden State og vakti athygli hversu vel stigaskorun dreifðist á leikmenn Brooklyn. Þannig skoraði Kyrie Irving 23 stig, Kevin Durant 20 stig, James Harden 19, Bruce Brown 18, Joe Harris 15 og Jeff Green 14. Harden náði auk þess tvöfaldri tvennu með því að taka 16 fráköst að auki.

Í liði Golden State var Steph Curry stigahæstur eins og hans er von og vísa en hann skoraði 27 stig. Samherji hans Kelly Oubre Jr. náði tvöfaldri tvennu með 17 stig skoruð og 10 fráköst.

Þá vann Utah enn einn sigurinn á tímabilinu þegar liðið lagði Miami Heat 112:94.

Donovan Mitchell var einu sinni sem áður stigahæstur í liði Utah með 26 stig.

Utah hefur nú unnið 22 af 27 leikjum sínum á tímabilinu.

Öll úrslit kvöldsins og næturinnar:

Golden State Warriors – Brooklyn Nets 117:134

Utah Jazz – Miami Heat 112:94

Phoenix Suns – Philadelphia 76ers 120:111

New York Knicks – Houston Rockets 121:99

Atlanta Hawks – Indiana Pacers 113:125

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert