Harden tók yfir í fjarveru Durant og Irving

James Harden fagnar þriggja stiga körfu sem hann setti niður …
James Harden fagnar þriggja stiga körfu sem hann setti niður í nótt. AFP

Í nótt fóru fram sex leikir í NBA-deildinni í körfuknattleik. Brooklyn Nets vann sögulegan endurkomusigur gegn Phoenix Suns þar sem James Harden var í aðalhlutverki.

Hvorki Kevin Durant né Kyrie Irving léku í nótt vegna meiðsla. Þá rann Harden blóðið til skyldunnar og náði tvöfaldri tvennu með því að skora 38 stig, gefa 11 stoðsendingar og taka sjö fráköst að auki.

Brooklyn var 21 stigi undir í hálfleik, 54:75, og var mest 24 stigum undir en Harden leiddi endurkomuna og kom liðinu yfir í leiknum í fyrsta skipti þegar hann skoraði þriggja stiga körfu með 31 sekúndu eftir á leikklukkunni, þá var staðan 126:124.

Harden bætti svo við tveimur vítaskotum og tryggði þar með Brooklyn 128:124 sigur. Um var að ræða bestu endurkomu félagsins í sögu sinni í NBA-deildinni, þar sem liðið spilaði fyrst árið 1976.

Öll úrslit næturinnar:

Phoenix Suns – Brooklyn Nets 124:128

Boston Celtics – Denver Nuggets 112:99

Memphis Grizzlies – New Orleans Pelicans 113:144

Milwaukee Bucks – Toronto Raptors 113:124

Minnesota Timberwolves – LA Lakers 104:112

Oklahoma City Thunder – Portland Trail Blazers 104:115

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert