Haukar segja Hjálmar enn samningsbundinn liðinu

Hjálmar Stefánsson í leik með Haukum á síðasta tímabili.
Hjálmar Stefánsson í leik með Haukum á síðasta tímabili. Eggert Jóhannesson

Bragi Hinrik Magnússon, formaður körfuknattleiksdeildar Hauka, segir Hjálmar Stefánsson vera samningsbundinn liðinu og megi því ekki ræða um félagsskipti við Val, sem hann hefur átt í viðræðum við undanfarið.

Þetta kemur fram á Vísi. Hjálmar er á heimleið eftir að hafa leikið með spænska liðinu Aquimisa Carbajosa frá því ágúst.

„Okkar túlkun er sú að hann sé samningsbundinn Haukum. Þetta fer bara sína leið í héraðsdómi ef þess þarf,“ sagði Bragi í samtali við Vísi.

Hann bendir á að þegar Hjálmar samdi árið 2019 við Hauka til 31. maí 2021 hafi verið ákvæði í samningnum sem vísaði til þess að hann mætti fara til erlends liðs

„[Á] sama hátt kemur greinilega fram að hann megi ekki ræða við íslensk lið. Við vorum því til í að hleypa honum út ef hann fengi tækifæri þar, en lítum svo á að ef hann er ekki að leita að tækifærum þar sé hann enn samningsbundinn Haukum,“ útskýrði Bragi í samtali sínu við Vísi.

Haukar höfðu samband við Hjálmar og reyndu að fá hann formlega til liðs við sig en auðnaðist það ekki.

Málið flækist enn frekar við það að Aquimisa Carbajosa þarf að veita Hjálmari leyfi fyrir félagsskiptum, og spænska körfuknattleikssambandið þarf að staðfesta þau við KKÍ.

Það er vegna þess að þegar félagsskipti Hjálmars til Spánar gengu í gegn þurftu Haukar að veita samþykki fyrir þeim. KKÍ gaf þá út leyfisbréf til spænska sambandsins svo Hjálmar yrði löglegur með Aquimisa Carbajosa.

Bragi sagði að þetta flækti vissulega málið. „Við vorum ekki í aðstöðu til að synja honum um undirskrift félagaskipta. En það breytir því ekki að samkvæmt samningalögum og íslenskum vinnuréttarlögum er hann með samning við rekstrarfélag Hauka ehf.

[O]kkur finnst eðlilegt að hann reyni ekki að nýta sér einhverja tæknigalla í samningi til að hlaupast undan honum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert