Hristum þá af okkur í þriðja leikhluta

Tryggvi Snær Hlinason lék vel í dag.
Tryggvi Snær Hlinason lék vel í dag. Ljósmynd/FIBA

„Þetta var bara flottur leikur. Ég persónulega lenti í villuvandræðum í leiknum þannig að það slapp vel,“ sagði Tryggvi Snær Hlinason, leikmaður Zaragoza í spænsku 1. deildinni, í samtali við mbl.is eftir að íslenska landsliðið tryggði sér efsta sætið í B-riðli fyrstu umferðar forkeppni HM 2023 í dag með 95:79 sigri gegn Slóvakíu í dag.

Tryggvi var eins og hann bendir sjálfur á kominn með þrjár villur í leiknum snemma leiks en fékk aðeins eina til viðbótar það sem eftir lifði leiks og slapp því með útilokun.

Íslenska liðið lék sérstaklega vel í þriðja leikhluta og fóru langt með að tryggja sér sigurinn með því að ná 24 stiga forystu, 79:55, í honum.

„Við spiluðum mjög vel og það komu margir mjög sterkir inn af bekknum. Við héldum uppi góðri stemningu allan tímann og náðum að hrista þá af okkur í þriðja leikhluta. Þetta var bara nokkuð gott,“ sagði Tryggvi.

Hann spilaði vel í leiknum og náði tvöfaldri tvennu, þar sem hann skoraði 17 stig og tók 14 fráköst. Var Tryggvi sáttur með eigin frammistöðu í leiknum?

„Já. Eins og ég segi, ef maður hefði verið laus við þessar villur og fengið að beita sér aðeins lengur þá hefði það verið mjög gott en ég er bara mjög sáttur með mig og sáttur með liðið.“

Þrátt fyrir að Ísland sé búið að vinna riðil sinn í fyrstu umferð forkeppninnar stefnir liðið ótrautt að því að vinna síðasta leik riðilsins, gegn Lúxemborg á sunnudag.

„Það er farið í næsta leik eins og hvern einasta leik. Við viljum spila góðan bolta, skemmta okkur og standa okkur vel. Við ætlum bara að vinna þann leik og klára þetta vel,“ sagði Tryggvi að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert