Ísland tryggði sér sæti í annarri umferð

Kári Jónsson og Ólafur Ólafsson fagna þriggja stiga körfu Kára …
Kári Jónsson og Ólafur Ólafsson fagna þriggja stiga körfu Kára í leiknum í dag. Ljósmynd/FIBA

Íslenska landsliðið í körfuknattleik karla er komið áfram í aðra umferð forkeppni HM 2023 eftir að hafa unnið góðan 94:79 sigur gegn Slóvakíu í Pristína í Kósóvó í dag. Ísland er þar með búið að vinna B-riðil fyrstu umferðar forkeppninnar.

Slóvakar byrjuðu leikinn betur og komust í 8:2 á meðan íslenska liðið var ekki að hitta nægilega vel úr skotum sínum. Ísland vann sig þó hægt en örugglega inn í leikinn og náði eins stigs forystu undir lok fyrsta leikhluta, 20:19. Slóvakar skoruðu svo úr einu vítaskoti og var staðan því jöfn, 20:20, að loknum fyrsta leikhluta.

Annar leikhluti byrjaði á svipaðan hátt og sá fyrsti þar sem Slóvakar tóku forystuna á meðan íslenska liðið skoraði ekki stig fyrstu tvær mínúturnar. Slóvakar glímdu þó við sama vandamál og voru ekki að hitta mikið. Ísland missti því Slóvakana ekki of langt fram úr sér, mest lenti íslenska liðið sex stigum undir í leikhlutanum, 29:35. Náði íslenska liðið svo forystunni undir lok leikhlutans og var staðan þar með 43:39 í hálfleik, Íslandi í vil.

Íslensku leikmennirnir ákváðu að gera ekki sömu mistök í upphafi síðari hálfleiks. Ísland byrjaði af gífurlegum krafti á meðan slóvakíska liðinu gekk bölvanlega að hitta úr skotum sínum. Sóknarleikur Íslands hóf að blómstra og hvert þriggja stiga skotið á fætur öðru fór ofan í körfuna. Íslenska liðið fór með 24 stiga forystu í fjórða og síðasta leikhluta, 79:55.

Í fjórða leikhlutanum tóku Slóvakarnir stjórnina og minnkuðu muninn hægt og bítandi. Þeir fóru að hitta nokkuð vel á meðan lítið sem ekkert gekk í sóknarleik Íslendinga. Þegar tæp mínúta var eftir af leiknum höfðu Slóvakar minnkað muninn niður í 10 stig, 89:79. Íslendingar skoruðu þó síðustu fimm stigin og 15 stiga sigur því staðreynd.

Jón Axel og Tryggvi með stórleik

Jón Axel Guðmundsson, sem leikur með Fraport Skyliners í þýsku 1. deildinni, var stigahæstur Íslendinga og skoraði 29 stig, þar af sex þriggja stiga körfur. Auk þess tók hann 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.

Þá náði Tryggvi Snær Hlinason, leikmaður Zaragoza í spænsku 1. deildinni, tvöfaldri tvennu. Var hann næststigahæstur Íslendinga með 17 stig og tók 14 fráköst, auk þess að gefa tvær stoðsendingar.

Ekki má gleyma framlagi Elvars Más Friðrikssonar, sem náði einnig tvöfaldri tvennu, en hann skoraði 16 stig, gaf 10 stoðsendingar og tók fjögur fráköst.

Ísland mætir næst Lúxemborg í Pristína á sunnudaginn kemur.

Slóvakía 79:94 Ísland opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert