Komum með íslensku orkuna sem við erum þekktir fyrir

Jón Axel Guðmundsson átti stórleik fyrir íslenska landsliðið í dag.
Jón Axel Guðmundsson átti stórleik fyrir íslenska landsliðið í dag. Ljósmynd/FIBA

Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson, sem leikur með Fraport Skyliners í þýsku 1. deildinni, átti stórleik þegar íslenska landsliðið í körfuknattleik tryggði sér efsta sætið í B-riðli fyrstu umferðar forkeppni HM 2023 með 95:79 sigri gegn Slóvakíu í dag.

„Þetta var mjög góður sigur hjá okkur og gott að tryggja okkur fyrsta sætið í riðlinum,“ sagði Jón Axel ánægður í samtali við mbl.is eftir leik.

Aðspurður hvernig honum hafi fundist leikurinn spilast sagði Jón Axel:  „Við komum svolítið flatir til leiks en svo rifum við þetta í gang fljótlega í öðrum leikhluta. Svo gerðum við alveg út af við þá í byrjun seinni hálfleiks, þegar við komum með þessa íslensku orku sem við erum svo þekktir fyrir.“

Hann var stigahæstur í leiknum með 29 stig, auk þess að taka sex fráköst og gefa fimm stoðsendingar. Var þetta hans besti leikur fyrir íslenska landsliðið?

„Þetta var allavega einn af þeim bestu. Ég spilaði vel í fyrra einhvern tímann en þetta var mjög góður leikur. Ég hefði náttúrulega aldrei getað gert þetta  einn, við erum með svo marga bakverði sem geta skapað fyrir hvern annan og svo er frábært að hafa þessa stóru karla inni í teig.“

Ísland mætir Lúxemborg í lokaleik riðilsins á sunnudag og segir Jón Axel íslenska liðið ætla sér sigur og ekkert annað í honum, þrátt fyrir að vera búið að vinna riðilinn. „Já klárlega, við förum í þann leik til þess að vinna. Vonandi geta allir fengið tækifæri hjá okkur í þeim leik,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert