KR fær liðsauka frá Danmörku

Björn Kristjánsson og félagar í KR fá danskan landsliðsmann í …
Björn Kristjánsson og félagar í KR fá danskan landsliðsmann í hópinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Danski landsliðsmaðurinn Zarko Jukic er genginn til liðs við körfuknattleikslið KR-inga og mun leika með því út þetta keppnistímabil.

Hann er 27 ára gamall framherji, tveir metrar á hæð, og kemur til KR frá danska úrvalsdeildarliðinu Næstved. Hann lék fyrst með Hörsholm í Danmörku en síðan með Nässjö og Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni, með Ourense í spænsku B-deildinni, Newcastle Eagles í bresku úrvalsdeildinni og Albacete í spænsku C-deildinni.

Darri Freyr Atlason þjálfari KR segir á heimasíðu félagsins að Jukic muni leysa framherja- og miðherjastöður í liðinu og á von á að hann verði öflugur í fráköstum þar sem hann hafi verið frákastahæsti leikmaður dönsku úrvalsdeildarinnar sem ekki var bandarískur. Þá sé hann fjölhæfur varnarmaður og frábrugðinn þeim leikmönnum sem fyrir eru í liði KR.

mbl.is