Ótrúleg staða í deildinni

Marques Oliver hefur breytt miklu í liði Skallagríms.
Marques Oliver hefur breytt miklu í liði Skallagríms. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óhætt er að segja að staðan í 1. deild karla í körfuknattleik sé komin í einn hnút eftir leiki kvöldsins en að þeim loknum skilja aðeins tvö stig að efstu sex liðin og hin þrjú eru öll jöfn að stigum.

Skallagrímur gerði góða ferð til Hveragerðis og lagði þar Hamarsmenn, 95:93, en Hamar stóð best að vígi í deildinni fyrir umferðina. Leikur Borgnesinga hefur breyst við að fá Marques Oliver en hann skoraði 26 stig fyrir þá og Kristján Örn Ómarsson 21. Michael Philips skoraði 29 stig fyrir Hamar.

Álftanes lagði Breiðablik, 95:86, en Blikarnir voru efstir fyrir umferðina. Tölfræði vantar úr leiknum.

Sindri fékk tækifæri til að komast á topp 1. deildar í fyrsta skipti en tapaði fyrir Hrunamönnum á Flúðum, 94:89. Corey Taite fór illa með Hornfirðinga og skoraði 41 stig fyrir Hrunamenn og Yngvi Freyr Óskarsson gerði 19. Gerard Baeza skoraði 30 stig fyrir Sindra og Gerald Robinson 26.

Vestri hefði getað jafnað fjögur efstu liðin að stigum en tapaði á Selfossi, 104:92. Kristijan Vladovic skoraði 21 stig yfirr Selfoss og Terrence Motley 16 en Nemanja Knezevic skoraði 22 stig fyrir Vestra og Ken-Jah Bosley 21.

Þetta þýðir að Hamar, Álftanes, Breiðablik og Sindri eru öll með 12 stig og síðan koma Vestri og Skallagrímur með 10 stig. Síðan eru Fjölnir, Hrunamenn og Selfoss öll með 6 stig, en geta greinilega öll gert hinum liðunum skráveifu.

mbl.is