Þroskast inn í nýtt hlutverk

Martin Hermannsson í leik með Valencia í Euroleague.
Martin Hermannsson í leik með Valencia í Euroleague. Ljósmynd/@YarisahaBasket

Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, segist um tíma í vetur hafa verið efins um hvort hlutverk leikstjórnanda hjá spænska stórliðinu Valencia væri heppilegt fyrir sig. Nú segist hann sjá hlutverkið í öðru og betra ljósi.

„Mér hefur gengið þokkalega en ég er í nýju hlutverki á vellinum. Það er svolítið skrítið fyrir mig að vera ekki stigahæstur eða með flestar stoðsendingar eins og oft hefur verið í gegnum ferilinn. Ég var fenginn hingað til að sinna allt öðruvísi hlutverki. Ég var fenginn til að stjórna liðinu en á að búa eitthvað til þegar illa gengur. Á þá að geta gert eitthvað óútreiknanlegt. Hjá Valencia finnst mönnum geggjað ef ég skora 6 stig og gef 6 stoðsendingar. Þá er það geggjuð frammistaða sem er alveg nýtt fyrir mér,“ útskýrir Martin og viðurkennir að hann hafi átt erfitt með að venjast breyttum leikstíl til að byrja með.

„Það pirraði mig rosalega í byrjun tímabilsins að vera ekki að gera allt og að skora ekki meira. En ég er búinn að þroskast inn í þetta hlutverk og held að ég hafi þroskast mikið sem leikmaður. Þegar ég horfi á tölurnar hjá mér, þá kemur í ljós að ég er að skjóta boltanum mjög vel. Ég hef átt marga góða leiki þótt ég sé ekki að skora 20 stig og gefa 10-15 stoðsendingar í leik. Ég hef hins vegar verið nokkuð stöðugur og hef spilað jafn mikið og hinn leikstjórnandinn Sam Van Rossom. Þriðji leikstjórnandinn meiddist en hann og Van Rossom hafa verið hjá félaginu í sex og níu ár. Þeir þekkja allt inn og út og ég vissi því að það yrði erfitt fyrir mig að koma mér inn í hlutina.“

Euroleague í forgangi

Martin stendur í ströngu um þessar mundir á miðju keppnistímabili. Valencia er í mikilli baráttu um að ná einu af átta efstu sætunum í Euroleague.

„Það má kannski segja að seinni hluti tímabilsins sé hafinn í spænsku deildinni. Við erum búnir með þrjá leiki í seinni umferðinni að ég held. Í Euroleague eigum við níu leiki eftir og segja má að gamanið sé að byrja. Við erum í þvílíkri baráttu um að komast í átta liða úrslitakeppnina í Euroleague. Þar er þvílíkur grautur og hver einasti leikur skiptir rosalega miklu máli núna. Það má kannski segja að við þyrftum að vinna sex eða sjö af síðustu níu leikjunum til að vera öruggir,“ segir Martin en í herbúðum Valencia er nú lögð mikil áhersla á Evrópukeppnina.

Viðtalið er mun lengra og er í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert