„Á að stefna miklu hærra en að spila á Íslandi“

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson í leik með KR á sínum tíma.
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson í leik með KR á sínum tíma. Eggert Jóhannesson

Skotbakvörðurinn Þórir Guðmundur Þorbjarnarson hefur verið orðaður við endurkomu í KR í Domino‘s-deildinni í körfuknattleik. Darri Freyr Atlason, þjálfari KR, segir þó engar viðræður í gangi og að Þórir ætti að stefna hærra en á að spila hér á landi.

Þórir er uppalinn hjá KR, þar sem hann varð Íslandsmeistari árið 2017. Mbl.is sló á þráðinn til Darra í dag og spurði hvort Þórir væri á leið til KR en hann sagði svo ekki vera. „Nei það er bara ekkert í gangi, engar viðræður hafnar eða neitt slíkt.

Hann er náttúrulega að klára námið sitt og kannski eðlilegt að menn fari þá að velta þessu fyrir sér en Þórir á auðvitað að stefna miklu hærra en á að spila á Íslandi,“ sagði Darri.

Þórir hefur undanfarin fjögur ár spilað með Nebraska Cornhuskers, liði Nebraska-Lincoln-háskólans, við afar góðan orðstír í 1. deild NCAA-háskóladeildarinnar í Bandaríkjunum.

Í gærkvöldi fór fram svokallað „Senior Night“ að loknum 78:74 sigri Nebraska gegn Minnesota Golden Gophers í deildinni, sem er kvöld þar sem þeir leikmenn sem eru að ljúka skólagöngu sinni eru heiðraðir. Þórir skoraði 10 stig í leiknum, tók fjögur fráköst og gaf tvær stoðsendingar.

Þórir var einn af þeim leikmönnum voru heiðraðir á kvöldinu og birti skólinn neðangreinda þakkarræðu hans á samfélagsmiðlum fyrir leik.

Nokkrir leikir eru enn þá eftir í deildinni en Nebraska á ekki möguleika á að komast í umspil.

mbl.is