Tveir Íslendingaslagir á Spáni – Haukur og Kári hlutskarpari

Haukur Helgi Pálsson í leik með Andorra á tímabilinu.
Haukur Helgi Pálsson í leik með Andorra á tímabilinu. Ljósmynd/EuroCup

Tveir Íslendingaslagir, annar í 1. deild og hinn í B-deild, fóru fram í spænska körfuknattleiknum í dag. Haukur Helgi Pálsson mætti Martin Hermannssyni og Kári Jónsson mætti Sigtryggi Arnari Björnssyni.

Haukur Helgi og félagar hans í Andorra unnu góðan 84:72 sigur gegn Martin og félögum hans í Valencia í spænsku 1. deildinni.

Haukur Helgi og Martin höfðu báðir nokkuð hægt um sig í dag, en Haukur Helgi skoraði fimm stig, tók fimm fráköst og gaf eina stoðsendingu og Martin skoraði fjögur stig, tók þrjú fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.

Andorra er í 10. sæti deildarinnar eftir sigurinn og Valencia er í því fimmta.

Öruggt hjá Girona

Í B-deildinni mætti Kári og félagar hans í Girona liði Real Canoe og hafði að lokum öruggan 87:62 sigur.

Kári skoraði sjö stig, tók eitt frákast og gaf eina stoðsendingu fyrir Giron og Sigtryggur Arnar skoraði sömuleiðis sjö stig, tók fjögur fráköst og gaf eina stoðsendingu.

Í B-riðli B-deildarinnar er Girona nú í 6. sæti og freistar þess að komast í umspil um sæti í 1. deildinni, en efstu fimm liðin í riðlinum komast þangað.

Real Canoe er í neðsta sæti riðilsins og á ekki lengur möguleika á að komast í umspil.

mbl.is