Fjölnir fær góðan liðsauka

Sigrún Björg Ólafsdóttir í leik með Haukum.
Sigrún Björg Ólafsdóttir í leik með Haukum. mbl.is/Hari

Fjölniskonur eiga von á góðum liðsauka innan skamms fyrir lokasprett keppnistímabilsins í körfubolta kvenna.

Sigrún Björg Ólafsdóttir landsliðskona, sem til þessa hefur leikið með Haukum, kemur til liðs við Grafarvogsliðið þegar hún hefur lokið tímabilinu með Chattanooga Mocs í bandaríska háskólaboltanum en Fjölnir skýrði frá þessu með tilkynningu í dag.

Þótt Sigrún sé aðeins nítján ára gömul var hún í stóru hlutverki með Haukum þegar Hafnarfjarðarliðið varð Íslandsmeistari árið 2018 og hún á að baki sjö A-landsleiki og fjölda leikja með yngri landsliðum Íslands. Hún hefur verið í stóru hlutverki með Chattanooga Mocs í vetur.

Þetta verður mikill styrkur fyrir Fjölnisliðið sem vann 1. deildina í fyrra og er nú í fjórða sæti úrvalsdeildar kvenna, Dominos-deildarinnar, með 12 stig úr ellefu leikjum. Stefanía Ósk Ólafsdóttir, samherji Sigrúnar í Haukum til margra ára og jafnaldra hennar, kom til liðs við Fjölni fyrir þetta tímabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert