Settum upp sérstaka taktík til að stöðva Glover og Brodnik

Borce Ilievski, þjálfari ÍR.
Borce Ilievski, þjálfari ÍR. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Eftir að hafa tapað þremur leikjum í röð þurftum við að bregðast vel við eins og við gerðum í kvöld. Við áttuðum okkur á því að við þurftum að spila þennan leik af miklum krafti frá upphafi til enda og það er það sem við gerðum. Ég er ánægður með frammistöðu allra leikmanna minna hvort sem þeir voru ungir og óreyndir eða gamlir og reyndir.“ 

Þetta sagði Borce Ilievski, þjálfari ÍR, í samtali við mbl.is eftir öruggan 91:69 sigur gegn Tindastóli í Dominos-deildinni í körfuknattleik karla í kvöld.

Hann var sérstaklega ánægður með miðherjann Þorgrím Kára Emilsson, sem hefur verið að glíma við meiðsli um langt skeið. „Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem Þorgrímur fær almennilegar mínútur í Dominos-deildinni vegna þess að hann hefur mikið verið að glíma við meiðsli en síðustu tvær til þrjár vikur hefur hann æft afar vel. Hann stóð sig vel á vellinum og á æfingum og ég tel að hann hafi notað mínúturnar sínar best. Ég er mjög ánægður með hann.“

Fyrir leikinn voru ÍR og Tindastóll jöfn að stigum í sjöunda og áttunda sæti deildarinnar, en ÍR fór upp í fimmta sætið með sigrinum. „Það gáfu allir allt sem þeir áttu, sérstaklega varnarlega. Við reyndum að vinna leikinn þar sem við þurftum á því að halda en ég veit að þetta var líka mikilvægur leikur fyrir Tindastól.

Leikjaplanið er mjög erfitt. Við spilum á tveggja til þriggja daga fresti og ég verð þá að hugsa vel um orku leikmanna og innáskiptingar. Aðstoðarþjálfari minn [Kristjana Eir Jónsdóttir] hjálpaði mér mikið með það.

Það voru nokkur augnablik í leiknum þar sem við vorum að flýta okkur of mikið í ákvarðanatökum. Það voru mestmegnis minna reyndir leikmenn, ungu strákarnir. En þetta er lærdómsferli fyrir okkur alla,“ bætti Borce við.

Breyttum mörgu

Spurður hverju hann hefði breytt eftir þrjá tapleiki í röð sagði Borce: „Við breyttum mörgu. Við töpuðum gegn KR í síðasta leik en við jukum gæði okkar þegar leið á þann leik, sérstaklega hvað stigamuninn varðar, þótt þeir hafi skorað mörg stig. Það var hátt tempó í þeim leik þannig að við þurfum að vanda okkur þegar við erum mikið með boltann.“

Hann telur sigurinn geta gefið góð fyrirheit fyrir framhaldið. „Ég held að þessi sigur geti hjálpað okkur mikið í næsta leik og restina af tímabilinu. Þetta er sterkur sigur fyrir okkur því ég veit að Tindastóll gerði sitt besta og þeir eru með mjög gott lið.

Við settum upp sérstaka taktík til þess að stöðva Shawn Glover og Jaka Brodnik undir körfunni og mér fannst það virka vel, það var mjög gott fyrir okkur. Við höldum bara áfram,“ sagði Borce Ilievski að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert