Umdeildur leikur í Atlanta og 2.500 áhorfendur

Giannis Antetokounmpo var í liði James og var valinn besti …
Giannis Antetokounmpo var í liði James og var valinn besti leikmaður Stjörnuleiksins. AFP

Lið LeBron James vann lið Kevin Durant 170:150 í árlegum Stjörnuleik NBA-deildarinnar í körfuknattleik. Leikurinn fór fram í Atlanta í nótt og voru 2.500 áhorfendur viðstaddir.

Deildin ákvað að vegna stöðu farsóttarinnar að breyta fyrirkomulaginu á leiknum, en allir þeir atburðir sem fara fram í kringum leikinn hafa gert þetta að næstum vikudæmi. Í staðinn var ákveðið að halda leikniskeppnina, þriggja stiga skotkeppnina og troðslukeppnina fyrir leikinn og í hálfleik. Leikmenn tóku allir einkaþotur til Atlanta og tóku þær svo heim strax eftir leikinn. Hugmynd deildarinnar var því að nota kunnáttuna frá „kúlunni” í Orlando í fyrra til að gera daginn eins öruggan og hægt var.

Litháinn Domantas Sabonis vann leikniskeppnina eftir úrslitaleik við Nikola Vucevic frá Svartfjallalandi og Stephen Curry vann þriggja stiga skotkeppnina með því að vinna bakvörðinn Mike Conley frá Utah Jazz, 28:27, í lokarimmunni.

Nýliðinn Anfernee Simons frá Portland Trail Blazers vann troðslukeppnina.
Nýliðinn Anfernee Simons frá Portland Trail Blazers vann troðslukeppnina. AFP

Samkvæmt þulum TNT-sjónvarpsstöðvarinnar voru þetta ekki óvænt úrslit. Höfðu þeir á orði að Curry hefði gengið inn í búningsherbergi leikmanna fyrir keppnina með sömu orðum og Larry Bird þegar fyrsta keppnin fór fram. „Hver ykkar ætlar sér annað sætið í dag?” Bird vann þrjár fyrstu keppnirnar, en hætti svo þátttöku.

Bakvörðurinn Anfernee Simons frá Portland vann troðslukeppnina, en hann vann lokalotuna gegn Obi Toppin frá New York. Báðir eru þeir nýliðar.

Giannis fullkominn

Þetta var í fyrsta sinn sem lið í Stjörnuleiknum náði að skora 170 stig, en að venju voru leikmenn lítið að leika vörn.

Grikkinn Giannis Antetokuonmpo var kosinn maður leiksins, enda setti hann öll sextán skot sín niður – þar á meðal þrjú þriggja stiga skot. Hann var stigahæsti maðurinn á vellinum með 35 stig.

Leikmenn voru yfir höfuð mjög „lausir” í leik sínum og voru þeir Damian Lillard og Stephen Curry að setja niður þriggja stiga skot í kringum miðlínu. Lillard skoraði úr skoti á varnarhelmingi sínum. Hlutur sem sést ekki oft í alvöruleikjum.

Stephen Curry vann þriggja stiga keppnina.
Stephen Curry vann þriggja stiga keppnina. AFP

James mætti, en lét aðra um erfiðið

Um tíma leit reyndar út fyrir að leikurinn myndi ekki verða háður, en rétt eins og að leiktímabilið hófst fyrr en margir leikmenn vildu, fór leikurinn fram þar sem samningur stéttarfélags leikmanna við deildina kveður svo á um. Hvorki leikmenn né eigendur liðanna voru á endanum tilbúnir að fórna öllum þeim peningum sem TNT-sjónvarpsstöðin greiðir fyrir sýningarréttinn á leiknum.

Þegar deildin tilkynnti dagsetningu og stað leiksins fyrir um þremur vikum lýstu flestir af bestu leikmönnum deildarinnar yfir að þeir vildu helst að leikurinn færi ekki fram svo að þeir gætu hvílt sig í vikuhléinu á keppnistímabilinu, enda þreytan þegar farin að segja til sín hjá þeim flestum. LeBron James hóf þessar hugmyndir opinberlega þegar dagsetningin var kynnt og hann var enn þeirrar skoðunar daginn fyrir leikinn.

Damian Lillard sýnir tilþrif.
Damian Lillard sýnir tilþrif. AFP

„Ég elska leikinn og deildina, en mér finnst að vegna kringumstæðna með veiruna og erfiðleikana með deildarkeppnina, að hægt væri að endurskoða dæmið. Þetta er þó ekki í  mínum höndum og ég get bara stjórnað því sem ég get stjórnað.”

James lék lítið í leiknum, þar á meðal ekkert í seinni hálfleiknum, en þar fer leikmaður sem ekkert hefur að sanna.

Hann mætti því í leikinn, rétt eins og allir þeir sem voru kosnir. Augljóst var þó að þrátt fyrir efasemdir nokkurra þeirra, virtist strax af myndskeiðum á TNT-sjónvarpsstöðinni að þeir væru að njóta dagsins eins og þessir leikmenn ávallt gera.

Eins og þeir segja það hér vestra: The show must go on.

Adam Silver framkvæmdastjóri NBA fylgist með gangi mála.
Adam Silver framkvæmdastjóri NBA fylgist með gangi mála. AFP

„Þetta er það sem við gerum best”

Adam Silver var inntur eftir þessu á fréttafundi daginn fyrir leikinn og sagði hann að þrátt fyrir efasemdir flestra bestu leikmannanna um að hafa leikinn í þetta sinn, hefði hann aldrei hugsað um að aflýsa leiknum. „Þetta var ekki aðeins efnahagsdæmi fyrir okkur. Þetta var ekki græðgi. Stjörnuleikurinn er það sem við gerum best sem deild. Það er geysilegur áhugi fyrir leiknum í vel yfir hundrað löndum þar sem honum verður sjónvarpað, auk streymis á honum á netinu.”

Fyrir Silver var leikurinn einnig tækifæri þar sem sumir leikmenn myndu aðeins leika í eitt eða tvö skipti. „Þetta er svo sjaldgæft tækifæri fyrir marga leikmenn að ég hef heyrt beint frá mörgum þeirra um að þeir hlakki mikið til hans. Af þeim sökum taldi ég mikilvægt fyrir okkur að hafa leikinn.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert