Harden breytir Brooklyn

James Harden hefur farið vel af stað með sínu nýja …
James Harden hefur farið vel af stað með sínu nýja félagi. AFP

Eftir stutta hvíld frá lokum síðasta keppnistímabils voru NBA-leikmenn að nýju í baráttunni og er miðbik leiktímabilsins nú komið með hinum árlega Stjörnuleik.

Forráðamenn deildarinnar skipulögðu aðeins deildaleiki fram að Stjörnuleiknum, enda þurfti að fresta þrjátíu leikjum það sem af er. Nú eru allir leikirnir komnir á skrá og er markmiðið að öll liðin nái að leika 72 leiki í vetur – en venjulega eru 82 leikir á lið í deildinni.

Þetta verður því mikill sprettur fyrir leikmenn og þjálfara að koma öllum þessum leikjum í höfn, rétt eins og í ensku knattspyrnunni, en deildin er staðráðin í að öll liðin nái að klára dagskrána.

Nú er að koma skýrari mynd á getu liðanna, en þar hefur ekki allt gengið eins og spádómar gerðu ráð fyrir í upphafi deildakeppninnar.

Harden sýnir nýjar hliðar

Austanmegin breyttist allt á toppnum þegar Brooklyn Nets fengu James Harden í leikmannaskiptum frá Houston Rockets. Með það var liðið allt í einu komið með þetta firnasterka þríeyki, Harden, Kevin Durant og Kyrie Irving. Þeir hafa virst óstöðvandi í sókninni í þeim fáu leikjum þar sem þeir hafa allir getað leikið saman. Harden hefur reyndar gert það sem fáir áttu von á – hann gjörbreytti leik sínum og er nú ráðandi leikmaður hjá liðinu í stoðsendingum. Hann virðist geta skorað að venju þegar hann vill, en með þá Durant og Irving atorkusama í stigaskoruninni eru aðrir styrkleikar hans sem leikmanns að koma í ljós.

Liðið hefur enn veikleika í vörninni og leikmenn tapa knettinum of oft, en búast má við að báðir þessir hlutir batni eftir því sem þríeykið leikur meira saman. Nets gæti komið inn í úrslitakeppnina sem topplið deildarinnar.

Reyndar er Philadelphia 76ers með besta árangur Austurdeildarinnar og það hefur komið mörgum á óvart. Þar hefur tvennt til komið. Joel Embiid er nú að leika betur en nokkru sinni fyrr. Ég hef séð hann leika hér í Staples Center og hef alltaf hugsað mér að þar fari leikmaður sem gæti tekið lið á sínar herðar. Koma þjálfarans Doc Rivers virðist hafa gert gæfumuninn fyrir Embiid, en Rivers er annálaður fyrir að ná vel til leikmanna sem þurfa smá spark í afturendann.

Milwaukee Bucks, Miami Heat og Boston Celtics voru öll sein í gang, en á þeim bæjum virðast hlutirnir vera að smella saman og býst ég því við að þessi fimm lið muni á endanum berjast um sigurinn í Austurdeildinni.

Ég á erfitt með á þessum tímapunkti að sjá Nets gefa eftir nái þríeykið á þeim bænum að forðast alvarleg meiðsl.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert