Kannski er tímabilið búið hjá mér í Euroleague

Martin Hermannsson í leik með Valencia í Euroleague.
Martin Hermannsson í leik með Valencia í Euroleague. AFP

Martin Hermannsson landsliðsmaður í körfuknattleik staðfestir að hann verði ekki með Valencia í næstu leikjum liðsins í spænsku A-deildinni og Euroleague vegna meiðslanna sem hann varð fyrir í gærkvöld.

Martin fór þá af velli eftir nokkrar mínútur í leik gegn Barcelona í spænsku deildinni en Valencia beið þar lægri hlut á heimavelli, 64:80.

„Ég var í myndatöku áðan og er með tognaðan vöðva í kálfanum. Maður verður að fara varlega, þetta geta verið hættuleg meiðsli ef maður fer of snemma að stað. Það er því erfitt að segja til um hve lengi ég verð frá en það verður líklega aldrei minna en tvær vikur,“ sagði Martin við mbl.is í dag.

Meiðslin gætu kostað hann þá leiki sem Valencia á eftir í Euroleague, næststerkustu keppni félagsliða í heiminum á eftir NBA. „Já, tímabilið hjá mér gæti verið búið þar því við eigum bara fjóra leiki eftir og erum í blóðugri baráttu um að komast í úrslitakeppnina. Það er mjög leiðinlegt að missa af því en maður verður bara að hafa trú á að strákarnir klári þetta og maður geti þá komið ferskur inn í úrslitakeppnina,“ sagði Martin.

Lið hans er í 10. sæti af 18 liðum en átta efstu komast í úrslitakeppnina. Valencia er í hörðum slag við Real Madrid og Zenit Pétursborg sem eru sjöunda og áttunda sæti og við Baskonia og Zalgiris Kaunas sem eru í níunda og ellefta sæti.

Valencia er hinsvegar í fimmta sæti spænsku A-deildarinnar og á fyrir höndum úrslitakeppni þar í vor ef allt er eðlilegt en ennþá eru átta leikir eftir af deildakeppninni. Valencia spilar alls 68 leiki í deildunum tveimur á tímabilinu og síðan bætist við úrslitakeppni, ein eða tvær eftir því hvernig gengur.

„Já, þetta eru endalaust margir leikir og kannski hlaut að koma að því að maður yrði fyrir einhverjum meiðslum eftir að hafa spilað tæplega sextíu leiki í röð,“ sagði Martin Hermannsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert