Dýrmæt stig í súginn

Haukur Helgi Pálsson var ekki í leikmannahóp Andorra í kvöld.
Haukur Helgi Pálsson var ekki í leikmannahóp Andorra í kvöld. Ljósmynd/EuroCup

Andorra, lið Hauks Helga Pálssonar í efstu deild Spánar í körfuknattleik, tapaði dýrmætum stigum í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni þegar liðið heimsótti Estudiantes í deildinni í kvöld.

Leiknum lauk með 97:85-sigri Estudiantes en mikið jafnræði var með liðunum allt þangað til í fjórða leikhluta.

Þar skoruðu leikmenn Andorra einungis fimm stig gegn sautján stigum Estudiantes og þar réðust úrslitin.

Haukur Helgi lék ekki með Andorra en liðið er í níunda sæti deildarinnar með 24 stig, tveimur stigum minna en Unicaja sem er með 26 stig, en Andorra á leik til góða á Unicaja.

mbl.is