Spiluðu loks fyrir framan áhorfendur

Jamal Murray var stigahæstur í nótt.
Jamal Murray var stigahæstur í nótt. AFP

Stuðningsmenn Denver Nuggets sáu lið sitt vinna leik í NBA-deildinni í körfuknattleik í fyrsta sinn á tímabilinu er liðið lagði Philadelphia 76ers að velli, 104:95.

Þetta var í fyrsta sinn sem áhorfendur voru leyfðir á leik síðan kórónuveirufaraldurinn hófst á síðasta ári en flestir áhorfendur voru framlínustarfsmenn sem boðið var á leikinn. Jamal Murray skoraði 30 stig fyrir heimamenn og þakkaði stuðningsmönnunum innilega fyrir komuna í leikslok. Denver er búið að vinna 12 af síðustu 15 leikjum sínum, sem er met hjá félaginu í deildinni.

Þá vann Phoenix Suns sinn þriðja sigur í röð, 117:110, gegn Atlanta Hawks, en þetta var jafnfram sjötti sigur liðsins í sjö leikjum. Devin Booker skilaði 21 stigi fyrir Phoenix og Dario Saric 20.

Úrslitin
Washington Wizards - Charlotte Hornets 104:114
Denver Nuggets - Philadelphia 76ers 104:95
Los Angeles Clippers - Orlando Magic 96:103
Phoenix Suns - Atlanta Hawks 117:110

mbl.is