Sóttu mikilvægan sigur til LA

Jeff Green hjá Brooklyn Nets, til vinstri, í leiknum við …
Jeff Green hjá Brooklyn Nets, til vinstri, í leiknum við Charlotte í nótt þar sem hann var stigahæstur. AFP

Denver Nuggets gerði góða ferð til Los Angeles í nótt og lagði þar Clippers að velli í viðureign tveggja af toppbaráttuliðum Vesturdeildar NBA í körfubolta.

Lokatölur urðu 101:94 fyrir Denver þar sem Jamal Murray var í aðalhlutverki og skoraði 23 stig. Kawhi Leonard var með 24 stig og 12 fráköst fyrir Clippers sem situr áfram í þriðja sæti á eftir Utah og Phoenix. Denver náði LA Lakers í fjórða til fimmta sæti með sigrinum.

Trae Young skoraði 22 stig frá og með fjórða leikhluta og 28 stig alls þegar Atlanta Hawks vann San Antonio Spurs í mögnuðum og tvíframlengdum leik í San Antonio, 134:129. Hann gerði 15 stig í framlengingunum og er fyrsti leikmaðurinn í sögu Atlanta til að afreka slíkt. Bæði lið eru í harðri baráttu um að komast í úrslitakeppnina og Atlanta innbyrti dýrmætan sigur í þeim slag.

Brooklyn Nets var ekki í vandræðum með Charlotte og vann 111:89 þrátt fyrir að bæði James Harden og Kevin Durant séu frá keppni vegna tognana. Jeff Green skoraði 21 stig fyrir Brooklyn sem hefur unnið 20 af 23 síðustu leikjum sínum og er komið í efsta sæti Austurdeildarinnar, einum sigri á undan Philadelphia 76ers sem vann öruggan tuttugu stiga sigur á Cleveland Cavaliers í nótt. Shake Milton skoraði þar 27 stig fyrir Philadelphia.

Úrslitin í nótt:

Cleveland - Philadelphia 94:114
Detroit - Washington 120:91
Brooklyn - Charlotte 111:89
Miami - Golden State 116:109
New Orleans - Orlando 110:115 (eftir framlengingu)
San Antonio - Atlanta 129:134 (eftir 2 framlengingar)
LA Clippers - Denver 94:101

mbl.is