Durant minnti á sig í endurkomunni

Kevin Durant er mættur aftur í lið Brooklyn Nets.
Kevin Durant er mættur aftur í lið Brooklyn Nets. AFP

Eftir að hafa misst af síðustu 23 leikjum vegna meiðsla aftan í læri sneri Kevin Durant aftur í lið Brooklyn Nets þegar það vann öruggan 139:111 sigur gegn New Orleans Pelicans í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Durant kom inn af bekknum og hitti úr öllum fimm skotum sínum úr opnum leik, þar af tveimur þriggja stiga skotum, og setti öll fimm vítaskot sín niður sömuleiðis. Endaði hann með 17 stig auk þess að taka sjö fráköst og gefa fimm stoðsendingar.

Stigahæstir Brooklyn-manna voru þeir Kyrie Irving með 24 stig og LaMarcus Aldridge með 22 stig.

Stigahæstur í leiknum var þó Eric Bledsoe, leikmaður New Orleans, með 26 stig.

Átta aðrir leikir fóru fram í NBA-deildinni í nótt.

Öll úrslit næturinnar:

Brooklyn – New Orleans 139:111

Indiana – Minnesota 141:137

Orlando – Washington 116:131

Boston – New York 101:99

Atlanta – Memphis 113:131

Houston – Dallas 102:93

Oklahoma – Charlotte 102:113

Denver – San Antonio 106:96

Phoenix – Utah 117:113 (frl.)

mbl.is