Tímabilið búið hjá Hauki

Haukur Helgi Pálsson í leik með Andorra.
Haukur Helgi Pálsson í leik með Andorra. Ljósmynd/EuroCup

Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, leikur ekki meira með Andorra á Spáni á þessu keppnistímabili.

Félag hans tilkynnti í dag að Haukur hefði meiðst á ökkla og yrði frá keppni í um það bil fjóra mánuði þar sem hann þyrfti að gangast undir uppskurð.

Þetta er áfall fyrir Hauk og fyrir lið Andorra sem er í harðri baráttu um sæti í átta liða úrslitunum um spænska meistaratitilinn. Haukur missir af síðustu níu leikjum liðsins í deildinni þar sem Andorra er í tíunda sæti af nítján liðum og er aðeins einum sigurleik frá áttunda sætinu.

Eins og staðan er núna eru Manresa, Unicaja Málaga, Andorra og Gran Canaria í sætum átta til ellefu og slást um eitt sæti í úrslitunum því talsvert bil er upp í sjöunda sætið. Næsti leikur Andorra er einmitt gegn Unicaja Málaga á útivelli um helgina.

mbl.is