Tveggja leikja bannið óhaggað

Adomas Drungilas hefur verið öflugur í liði Þórs frá Þorlákshöfn …
Adomas Drungilas hefur verið öflugur í liði Þórs frá Þorlákshöfn í vetur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Adomas Drungilas, körfuknattleiksmaður hjá Þór á Þorlákshöfn, þarf að afplána tveggja leikja bann sem hann var úrskurðaður í skömmu fyrir páska en áfrýjunardómstóll KKÍ hefur vísað málinu frá.

Drungilas sveiflaði olnboga í andlit Mirza Saralija í leik Þórs gegn Stjörnunni. Dómarar leiksins sáu ekki atvikið en í niðurstöðu aganefndar sem skoðaði það af myndbandsupptöku segir að þar sjáist með óyggjandi hætti að leikmaðurinn hafi framið brot sem hefði átt að leiða til brottvísunar.

Litháinn áfrýjaði úrskurðinum en í niðurstöðu áfrýjunardómstólsins segir m.a. að rök kæranda séu þau að um gríðarlega íþyngjandi úrskurð sé að ræða og því ástæða til að gera undantekningu frá þeirri meginreglu að aðeins sé hægt að áfrýja úrskurðum um fjögurra leikja bann eða meira. Þetta segir áfrýjunardómstóllinn að séu ekki rök fyrir undantekningu, þar með bresti heimild til áfrýjunar og því sé kærunni vísað frá dómi.

Keppni hefur legið niðri síðan og Drungilas á eftir að afplána bannið en fyrstu tveir leikir Þórs eftir að keppni hefst á ný eiga að vera gegn Þór frá Akureyri og Hetti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert