Ótrúlegur endasprettur hjá Boston Celtics

Jayson Tatum skoraði 28 stig fyrir Boston gegn Denver í …
Jayson Tatum skoraði 28 stig fyrir Boston gegn Denver í kvöld. AFP

Boston Celtics átti magnaðan lokasprett í kvöld þegar liðið vann góðan útisigur á Denver Nuggets, 105:87, í NBA-deildinni í körfuknattleik.

Denver var með fjórtán stiga forskot, 79:65, þegar skammt var eftir af þriðja leikhluta en leikmenn Boston gjörsamlega völtuðu yfir heimaliðið á þeim tíma sem eftir var og skoruðu 40 stig gegn aðeins átta.

Jayson Tatum skoraði 28 stig fyrir Boston, þar af fjórtán í fjórða leikhluta, og Jaylen Brown skoraði 20 stig.

Boston styrkti stöðu sína í sjöunda sæti Austurdeildar en liðið er í tvísýnni baráttu um sæti úrslitakeppninni. Denver er hins vegar í fjórða sæti Vesturdeildar og heldur þar meisturum Los Angeles Lakers einu sæti fyrir aftan sig sem stendur.

Bogdan Bogdanovic skoraði átta þriggja stiga körfur, persónulegt met hjá honum í deildinni, og skoraði 32 stig fyrir  Atlanta Hawks þegar lið hans vann Charlotte Hornets í æsispennandi leik á útivelli í kvöld, 105:101.

Þetta var afar mikilvægur leikur því Atlanta er í fjórða sæti Austurdeildar og Charlotte í því fimmta, og liðin myndu því mætast í fyrstu umferð úrslitakeppninnar miðað við stöðuna í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert