Smit í liði Jóns og tveimur leikjum frestað

Jón Axel Guðmundsson leikur með Fraport Skyliners.
Jón Axel Guðmundsson leikur með Fraport Skyliners. Ljósmynd/FIBA

Tveimur leikjum hjá þýska körfuknattleiksliðinu Fraport Skyliners, sem Jón Axel Guðmundsson leikur með, hefur verið frestað eftir að leikmaður í liðinu greindist smitaður af kórónuveirunni.

Fraport átti að mæta Ludwigsburg í dag og Würzburg á miðvikudaginn kemur en báðum leikjum hefur verið frestað.

Á heimasíðu þýsku deildarinnar segir að ónafngreindur leikmaður Fraport hafi greinst með veiruna og hafi þegar verið settur í einangrun. Allir aðrir leikmenn og starfslið Fraport hafi greinst neikvæðir en heilbrigðisyfirvöld hafi skikkað alla í hópnum sem haft höfðu samskipti við leikmanninn smitaða til að fara í sóttkví.

mbl.is