Tvöföld tvenna innan seilingar hjá Tryggva

Tryggvi Snær Hlinason.
Tryggvi Snær Hlinason. Ljósmynd/FIBA

Tryggvi Snær Hlinason var nærri því að ná tvöfaldri tvennu í kvöld þegar Zaragoza tók á móti Valencia, liði Martins Hermannssonar, í spænsku A-deildinni í körfuknattleik.

Tryggvi lét talsvert að sér kveða en hann skoraði 10 stig fyrir Zaragoza og tók níu fráköst. Hann spilaði í tæpar 25 mínútur með liðinu. Martin lék ekki með Valencia en hann er að jafna sig af meiðslum.

Valencia styrkti stöðu sína í fimmta sæti deildarinnar með sigrinum en á litla möguleika á að komast ofar áður en deildinni lýkur. Nánast formsatriði er hjá liðinu að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni. Zaragoza er í 13. sæti og er sex stigum frá áttunda sætinu þegar liðið á átta leiki eftir.

mbl.is