Frábær í fjórða sigurleiknum í röð

Elvar Már Friðriksson í leik með Siauliai.
Elvar Már Friðriksson í leik með Siauliai. Ljósmynd/LKL

Elvar Már Friðriksson, landsliðsmaður í körfuknattleik, átti enn einn stórleikinn með Siauliai í dag þegar liðið hélt áfram sigurgöngu sinni í litháísku A-deildinni.

Siauliai sigraði Lietkabelis á heimavelli, 97:87, og Elvar var í stóru hlutverki. Hann var stigahæstur allra á vellinum með 23 stig og auk þess með langflestar stoðsendingar, 11 talsins, ásamt því að taka tvö fráköst. Þá spilaði hann mest allra, eða í rúmar 36 mínútur af 40, og var með flest framlagsstig í báðum liðum, eða 29.

Horfurnar voru ekki góðar í hálfleik en þá var Siauliai undir, 39:53. Liðið skoraði hins vegar 26 stig gegn 7 í þriðja leikhluta og sneri leiknum við.

Siauliai hefur setið í tíunda og neðsta sæti deildarinnar nánast allt tímabilið en hefur nú heldur betur hrokkið í gang og sigurinn í dag var sá fjórði í röð. Andstæðingarnir í Lietkabilis eru í þriðja sætinu.

Fyrir vikið er Siauliai nú komið upp í sjöunda sætið en gríðarlega tvísýn barátta er fram undan milli sex liða í deildinni um þrjú síðustu sætin í úrslitakeppninni, auk þess sem neðsta liðið fellur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert