Hættir vegna hjartsláttartruflana

LaMarcus Aldridge í leik með Brooklyn Nets gegn Charlotte Hornets …
LaMarcus Aldridge í leik með Brooklyn Nets gegn Charlotte Hornets fyrr í mánuðinum. AFP

Körfuknattleiksmaðurinn LaMarcus Aldridge hjá hinu vel mannaða liði Brooklyn Nets í NBA-deildinni tilkynnti óvænt í dag að hann væri hættur körfuknattleiksiðkun af heilsufarsástæðum. 

Aldridge gekk í raðir Brooklyn í vetur frá San Antonio Spurs og hefur leikið fimmtán tímabil í deildinni. 

Í tilkynningunni segist hann hafa fundið fyrir miklum hjartsláttartruflunum í síðasta leik og síðar um kvöldið hafi staðan versnað. Morguninn eftir lét hann félagið vita og fór undir læknishendur. Þótt honum líði nú mun betur hafi upplifunin hrætt hann nógu mikið til þess að hann vill fyrir alla muni forðast að upplifa slíkt aftur. Körfuknattleikurinn hafi verið númer eitt síðustu fimmtán árin en nú verði heilsan og fjölskyldan í fyrsta sæti. 

Aldridge var um tíma að minnsta kosti á meðal öflugustu miðherja í deildinni. Honum tókst að skora 19,4 stig að meðaltali í leikjunum 1.029 sem hann spilaði í NBA. Var hann fimm sinnum valinn í lið ársins.

Aldridge kom inn í deildina árið 2006 og var þá valinn númer tvö í nýliðavalinu af Portland Trail Blazers. Þar lék hann þar til hann fór til San Antonio árið 2015.

mbl.is