KR-ingar köstuðu sigrinum aftur frá sér

Ólafur Ólafsson tryggði Grindvíkingum sigur í Vesturbæ.
Ólafur Ólafsson tryggði Grindvíkingum sigur í Vesturbæ. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Ólafsson reyndist hetja Grindavíkur þegar liðið heimsótti KR í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Dominos-deildinni, í DHL-höllina í Vesturbæ í kvöld.

Leiknum lauk með tveggja stiga sigri Grindavíkur, 85:83, en Ólafur tryggði Grindavík sigur með flautukörfu á lokasekúndum leiksins.

Grindavík var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddi með níu stigum í hálfleik, 43:34, og þeir juku forskot sitt í ellefu stig í þriðja leikhluta.

KR-ingum tókst að saxa á forskot Grindvíkinga í fjórða leikhluta og þeir leiddu með fjórum stigum þegar tólf sekúndur voru til leiksloka, 83:79.

Björgvin Hafþór Ríkharðsson minnkaði muninn fyrir Grindavík í eitt stig með þriggja stiga körfu þegar sex sekúndur voru til leiksloka.

KR-ingar fóru í sókn, Matthías Orri Sigurðarson kastaði boltanum frá sér og Ólafur Ólafsson komst inn í sendinguna. Hann brunaði upp völlinn, setti niður þriggja stiga körfu og tryggði Grindavík ótrúlegan sigur.

Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem KR-ingar kasta unnum leik frá sér en það sama gerðist gegn Haukum í Vesturbæ 25. apríl.

Joonas Jarvelainen var stigahæstur í liði Grindvíkinga með 22 stig og títtnefndur Ólafur gerði 16 stig.

Tyler Sabin var stigahæstur KR-inga með 31 stig, Matthías Orri skoraði 16 stig.

Grindavík fer með sigrinum upp í fimmta sætið í 20 stig en KR er í fjórða sætinu, einnig með 20 stig.

Gangur leiksins:: 0:2, 3:7, 9:9, 11:20, 17:25, 21:33, 25:38, 34:43, 38:51, 45:56, 52:56, 52:63, 59:67, 64:70, 74:73, 83:85.

KR: Tyler Sabin 31, Matthías Orri Sigurðarson 16/5 fráköst/6 stoðsendingar, Brandon Joseph Nazione 16, Brynjar Þór Björnsson 9, Veigar Áki Hlynsson 4, Zarko Jukic 4/5 fráköst, Jakob Örn Sigurðarson 3/4 fráköst.

Fráköst: 17 í vörn, 2 í sókn.

Grindavík: Joonas Jarvelainen 22/4 fráköst, Ólafur Ólafsson 16/4 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 15/10 fráköst, Amenhotep Kazembe Abif 13/9 fráköst, Bragi Guðmundsson 8, Kristinn Pálsson 6/8 fráköst, Kristófer Breki Gylfason 3, Jóhann Árni Ólafsson 2.

Fráköst: 24 í vörn, 17 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson, Aron Rúnarsson.

Áhorfendur: 55

mbl.is