Stórstjörnurnar skoruðu tæplega 100 stig

Kevin Durant og Giannis Antetokounmpo eigast við í leiknum í …
Kevin Durant og Giannis Antetokounmpo eigast við í leiknum í kvöld. AFP

Giannis Antetokounmpo átti stórleik fyrir Milwaukee Bucks þegar liðið fékk Brooklyn Nets í heimsókn í bandarísku NBA-deildinni í körfuknattleik í kvöld.

Antetokounmpo gerði sér lítið fyrir og skoraði 49 stig fyrir Milwaukee, ásamt því að taka átta fráköst, en leiknum lauk með 117:114-sigri Milwaukee.

Leikurinn var kaflaskiptur í fyrri hálfleik en Milwaukee leiddi með þremur stigum í hálfleik, 62:59.

Brooklyn tókst að jafna metin og var staðan 90:90-fyrir fjórða leikhluta en þar reyndist Milwaukee sterkari aðilinn.

Kevin Durant átti stórleik fyrir Brooklyn, skoraði 42 stig og tók tíu fráköst, en því miður fyrir Brooklyn dugði það ekki til.

Milwaukee er í þriðja sæti austurdeildarinnar með 40 sigra en Brooklyn er í öðru sætinu með 43 sigra og öruggt með sæti í úrslitakeppninni.

mbl.is