Dæmdi tvö þúsundasta leikinn

Sigmundur Már Herbertsson, fyrir miðju, fyrir leik Þórs og ÍR …
Sigmundur Már Herbertsson, fyrir miðju, fyrir leik Þórs og ÍR í vetur. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Körfuknattleiksdómarinn Sigmundur Már Herbertsson dæmdi sinn tvö þúsundasta leik á vegum Körfuknattleikssambands Íslands í gærkvöld.

Sigmundur var einn þriggja dómara í leik Hauka og Hattar á Ásvöllum í Hafnarfirði sem hafði afgerandi áhrif á fallbaráttu deildarinnar því Haukar biðu lægri hlut og féllu þar með úr úrvalsdeildinni.

Sigmundur hefur dæmt frá árinu 1994. Hann hefur þrettán sinnum verið valinn besti dómarinn af leikmönnum í úrvalsdeildunum og hefur dæmt fleiri alþjóðlega leiki en nokkur annar Íslendingur, 223 talsins.

Hann var samt ekki leikjahæstur í dómaratríóinu á Ásvöllum. Annar meðdómara hans var Rögnvaldur Hreiðarsson, sá eini sem áður hefur náð að dæma tvö þúsund leiki, en þetta var 2.036. leikur Rögnvalds.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert