Leika um þriðja sæti Meistaradeildarinnar

Tryggvi Snær Hlinason skoraði tvö stig fyrir Zaragoza í dag.
Tryggvi Snær Hlinason skoraði tvö stig fyrir Zaragoza í dag. Ljósmynd/FIBA

Tryggvi Snær Hlinason og liðsfélagar hans í spænska körfuknattleiksfélaginu Zaragoza töpuðu naumlega fyrir Pinar Karsiyaka í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í Nizhnij Novgorod í Rússlandi í dag, 84:79.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en Pinar Karsiyaka var tíu stigum yfir í hálfleik, 43:33. Zaragoza sneri leiknum sér í vil í þriðja leikhluta og leiddi 60:57 fyrir fjórða leikhluta en þar voru leikmenn Pinar Karsiyaka sterkari.

Tryggvi Snær lék í rúma fimm og hálfa mínútu í leiknum, skoraði 2 stig og tók eitt frákast en hann lenti snemma í villuvandræðum og kom lítið við sögu í síðari hálfleik.

Zaragoza mætir annaðhvort San Pablo Burgos eða Strasbourg í leik um þriðja sætið á sunnudaginn en liðin mætast síðar í kvöld í hinu undanúrslitaeinvígi Meistaradeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert