Ef Ariel skorar ekki vinna þær ekki

Hallveig Jónsdóttir var öflug í liði Vals í kvöld.
Hallveig Jónsdóttir var öflug í liði Vals í kvöld. Kristinn Magnússon

Hallveig Jónsdóttir átti góðan leik fyrir Val í kvöld þegar liðið gjörsigraði Fjölni, 90:49, í Origo-höllinni að Hlíðarenda í fyrsta leik undanúrslita Íslandsmótsins í körfuknattleik kvenna.

Hún skoraði 17 stig og var með frábæra skotnýtingu, hitti úr sjö af níu skotum sínum. Þar af voru fjögur af fimm tveggja stiga skotum og þrjú af fjórum þriggja stiga skotum. Hallveig var að vonum ánægð með þennan stóra sigur.

„Þetta var gott í kvöld og mögulega ekki að fara að vera lýsandi fyrir þessa seríu. Ég veit það ekki, ég býst ekki við öðru en að þær mæti með aðeins meiri kraft á mánudaginn,“ sagði hún í samtali við mbl.is að leik loknum.

Eins og Hallveig bendir á fer annar leikurinn í einvíginu fram á mánudaginn í Grafarvoginum.

„Við förum ekkert að breyta í okkar leikplani, við spiluðum frábærlega vel í kvöld bæði sóknarlega og varnarlega. En þær munu væntanlega koma með eitthvað annað sem við munum þurfa að laga okkur að á mánudaginn og ég hef engar áhyggjur af því,“ bætti hún við.

Spurð um hvað hafi lagt grunninn að sigrinum í kvöld stóð ekki á svörum: „Það var vörnin á Ariel [Hearn]. Ef Ariel er ekki að skora í þessu liði þá vinna þær ekki leiki. Hún var bara með fjögur stig í kvöld og fjórar villur og að mér fannst ekki inni í leiknum.

Við náðum að taka hana mjög vel út. Dagbjört [Dögg Karlsdóttir] spilaði frábæra vörn á hana og svo eru margar að setja skotin sín niður í kvöld. Það var það sem skóp sigurinn hjá okkur.“

Að lokum lék blaðamanni forvitni á að vita hvort Valskonur stefni að því að fara taplaust í gegnum einvígið, „sópa“ því eins og það er kallað.

„Já það er stefnt að því að sjálfsögðu. Sópurinn á lofti! Maður reynir það að sjálfsögðu en það er ekkert eina markmiðið, það er að komast í úrslitin,“ sagði Hallveig að síðustu í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert