Hægðarleikur hjá deildarmeisturunum í fyrsta leik

Valur og Fjölnir eigast við í kvöld.
Valur og Fjölnir eigast við í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur tók á móti Fjölni í fyrsta leik undanúrslita Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik í kvöld. Deildarmeistarar Vals áttu ekki í neinum vandræðum með gestina úr Grafarvogi og unnu gífurlega sannfærandi 90:49 sigur.

Bæði lið byrjuðu af miklum krafti og var mikið jafnræði með liðunum. Valskonur komust í 10:8 áður en Fjölniskonur skoruðu næstu fimm stig. Staðan orðin 10:13 og Valskonur tóku leikhlé þegar fyrsti leikhluti var rúmlega hálfnaður.

Leikhléið virkaði sem vítamínsprauta fyrir heimakonur því þær sneru taflinu við og komust í 19:15 áður en langt var um liðið. Valur náði mest sex stiga forystu í fjörugum fyrsta leikhlutanum og var staðan að honum loknum 23:19.

Í öðrum leikhluta hertu Valskonur tökin svo um munaði þar sem Kiana Johnson reyndist gestunum afar erfiður ljár í þúfu með hraða sínum og fimum töktum. Stýrði Bandaríkjakonan sóknarleik heimakvenna með miklum glans.

Á meðan áttu Fjölniskonur í stökustu vandræðum með að skora í leikhlutanum eftir góðan sóknarleik í þeim fyrsta. Þær skoruðu aðeins sjö stig á móti 20 stigum Vals í leikhlutanum og Valskonur fóru því með þægilega 17 marka forystu í hálfleik, 43:26.

Valskonur hófu síðari hálfleikinn á sömu nótum, skoruðu fyrstu fimm stig þriðja leikhluta og bættu enn frekar í. Þær voru fljótlega komnar með 26 stiga forystu, 59:33, og náðu mest 36 stiga forystu í leikhlutanum, 73:37. Þannig stóðu leikar að þriðja leikhlutanum loknum.

Í fjórða og síðasta leikhluta var það sama uppi á teningnum. Valskonur juku bara forskot sitt og komust mest í 48 stiga forystu, 87:39. Valskonur unnu svo að lokum auðveldan 41 stiga sigur, 90:49.

Sem áður segir átti Kiana Johnson stórleik  í liði Vals og var stigahæst í leiknum með 22 stig, auk þess sem hún tók níu fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Ariel Hearn, einn besti sóknarmaður Olísdeildar kvenna í vetur, náði sér ekki á strik í kvöld og gerði aðeins fjögur stig fyrir Fjölni. Var þar að þakka frábærum varnarleik Valskenna, með Dagbjörtu Döggu Karlsdóttur fremsta í flokki.

Valur leiðir því í einvíginu, 1:0. Þrjá sigra þarf í því til þess að komast í úrslitin gegn annaðhvort Haukum eða Keflavík.

Liðin mætast næst í Grafarvoginum á mánudagskvöld.

Valur 90:49 Fjölnir opna loka
99. mín. skorar
mbl.is