Skemmtun mikilvægari en öryggi fólks

Deildin í Ísrael er sterk með Maccabi Tel-Aviv meðal sterkustu …
Deildin í Ísrael er sterk með Maccabi Tel-Aviv meðal sterkustu liða í Euroleague. AFP

Nokkrir erlendir leikmenn ísraelskra körfuknattleiksliða hafa mótmælt þeirri ákvörðun körfuknattleikssambands landsins að ljúka keppninni um meistaratitil karla á einum leikstað þar sem öll liðin verði í einangrun.

Ákvörðunin var tekin í kjölfarið á vaxandi átökum Ísraelsmanna og Palestínumanna á Gaza-svæðinu.

Keppni hefur legið niðri síðustu daga en á nú að halda áfram í næstu viku í borginni Eilat, sem er vinsæl ferðamannaborg syðst í landinu, á norðurströnd Rauðahafsins.

Erlendu leikmennirnir sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir óskuðu eftir því að keppninni yrði aflýst og þeir sem vildu gætu farið heim til fjölskyldna sinna. Af öryggisástæðum væri það hið eina rétta fyrir alla aðila.

Stjórn deildarinnar hefur nú hótað refsingum ef leikmenn yfirgefi liðin og hyggist yfirgefa landið.

Þegar hafa nokkrir leikmannanna brugðist við því með yfirlýsingum á samfélagsmiðlum. Othello Hunter, bandarískur leikmaður Maccabi Tel Aviv, segir að stjórn deildarinnar hafi með þessu lýst því yfir að skemmtun sé mikilvægari en öryggi fólks og DJ Stephens, leikmaður Maccabi Rishon og fyrrverandi leikmaður m.a. Milwaukee Bucks, segir að líf og heilsa hljóti að hafa meira vægi en síðustu leikir tímabilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert