Torsóttur sigur Vals

Valskonan Helena Sverrrisdóttir með boltann í kvöld.
Valskonan Helena Sverrrisdóttir með boltann í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjölnir og Valur mættust öðru sinni í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik í Dalhúsum í Grafarvogi í kvöld og hafði Valur betur 83:76. 

Valur vann stórsigur í fyrsta leiknum, 90:49 og er því 2:0 yfir í rímmunni en liðið sem vinnur þrjá leiki kemst í úrslitaeinvígið.

Valur stendur því afar vel að vígi en liðið varð deildarmeistari og líklegt til að komast í úrslitin. Fjölnir sem hafnaði í 4. sæti í deildinni gaf hins vegar ekkert eftir í kvöld og leikurinn var í járnum allan tímann. 

Þegar nokkrar mínútur voru eftir náði Valur að slíta sig frá Fjölni og landa sigrinum en Valur hafði verið yfir frá því í fyrsta leikhluta. Munurinn var hins vegar mjög lítill og fór ekki yfir sex stig. 

Eftir stórsigur Vals í fyrsta leiknum var ljóst í kvöld að Fjölniskonur ætluðu ekki að láta það endurtaka sig. Baráttuandinn var til staðar og liðið byrjaði vel. Fjölnir var yfir í fyrsta leikhluta 10:5 og að honum loknum var staðan 16:16. Í öðrum leikhluta var Valur iðulega yfir en munurinn var aldrei mikill. Smám saman jókst trú leikmanna Fjölnis á að liðið ætti möguleika í leiknum. 

Að loknum fyrri hálfleik hafði Valur þriggja stiga forskot og forskotið var enn þrjú stig fyrir síðasta leikhlutann. Af og til í leiknum juku Valskonur forskotið upp í sex stig en Fjölnir náði alltaf rispum þar sem liðið saxaði muninn niður. Spennan var því alltaf fyrir hendi. 

Þriggja stiga karfa frá Dagbjörtu Dögg Karlsdóttur gerði nánast útslagið.
Þriggja stiga karfa frá Dagbjörtu Dögg Karlsdóttur gerði nánast útslagið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Segja má að þriggja stiga karfa frá Dagbjörtu Dögg Karlsdóttur þegar tæpar tvær mínútur voru eftir hafi ráðið úrslitum en þá náði Valur níu stiga forskoti. Leikmenn Fjölnis hættu aldrei að reyna og náðu muninum niður í fimm stig en sigri Vals var ekki ógnað á lokamínútunni. 

Lítið má fara úrskeiðis gegn Valsliðinu

Mér fannst Valsliðið aldrei ná góðum tökum á leiknum en á móti má segja að liðið hafi kannski ekki heldur lent í vandræðum þar sem Fjölnir var ekki yfir í leiknum eftir fyrsta leikhluta. Í liði Vals eru fleiri leikmenn sem geta tekið af skarið og það sást í kvöld. Ásta Júlía Grímsdóttir átti til dæmis virkilega góðan leik og var mjög snjöll í að koma sér í góð færi nærri körfunni. Ásta skoraði 18 stig í leiknum og var með 88% skotnýtingu.

Helena Sverrisdóttir og Kiana Johnson komu með sendingar á réttum tíma þegar Ásta bauð sig nærri körfunni en Helena gaf níu stoðsendingar og Johnson tíu. Hallveig Jónsdóttir hefur lag á því að skila þriggja stiga körfum þegar Valsliðið þarf á að halda og setti niður fjóra þrista í sjö tilraunum. Dagbjört þarf að glíma við Ariel Hearn á löngum köflum sem er ekki einfalt en gerði það nokkuð vel. 

Fjölnisliðið er með öfluga leikmenn. Lina Pikciuté er 192 cm og var valin besti leikmaður deildarinnar í Litháen árið 2013. Hún skoraði 29 stig og tók 16 fráköst þegar Fjölnir vann Val í upphafi tímabilsins. Sara Djassi er góð þriggja stiga skytta og Ariel Hearn er mjög klókur leikstjórnandi. Ekki síst í því að hirða boltann af andstæðingunum en það virðist bara ekki vera óhætt að stinga boltanum niður nærri henni. Hún náði boltanum átta sinnum af Valsliðinu og skoraði 26 stig. Hearn þurfti að sýna góðan leik í kvöld eftir að hafa verið í vandræðum í fyrsta leik liðanna. Hin 19 ára gamla Sigrún Björg Ólafsdóttir átti einnig fínan leik hjá Fjölni. Var baráttuglöð, spilaði fína vörn og skoraði 13 stig. 

Ariel Hearn var mun öflugri í kvöld en í fyrsta …
Ariel Hearn var mun öflugri í kvöld en í fyrsta leiknum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ég velti því fyrir mér hvort Fjölnir þurfi að finna augnablik til að hvíla erlendu leikmennina örlítið meira. Ef til vill er það of mikil áhætta gegn Val sem getur refsað mjög hratt. Í það minnsta sáust þreytumerki hjá þessum leikmönnum þegar nokkrar mínútur voru eftir af leiknum og Valur náði að koma sér í stöðu til að vinna leikinn. 

Það sýndi sig að lið Fjölnis getur keppt við Val á góðum degi. Til þess að vinna þarf margt að ganga upp. Í kvöld gerðu leikmenn liðsins nokkur ódýr mistök. Nokkuð sem lið geta tæplega leyft sér gegn Val. Tvívegis í fyrri hálfleik tapaði liðið boltanum þegar ekki tókst að koma honum á samherja úr innkasti svo dæmi sé tekið. Atriði sem þessi eru dýr gegn deildarmeisturunum. 

Fjölnir - Valur 76:83

Dalhús, Dominos deild kvenna, 17. maí 2021.

Gangur leiksins:: 10:5, 10:9, 14:11, 16:16, 16:19, 21:23, 24:30, 33:36, 37:39, 45:49, 50:52, 56:59, 59:65, 63:69, 66:72, 76:83.

Fjölnir: Ariel Hearn 26/9 fráköst/12 stoðsendingar/8 stolnir/3 varin skot, Lina Pikciuté 14/9 fráköst/3 varin skot, Sara Carina Vaz Djassi 14/7 fráköst, Sigrún Björg Ólafsdóttir 13/4 fráköst, Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir 6/4 fráköst, Margret Osk Einarsdottir 3.

Fráköst: 27 í vörn, 6 í sókn.

Valur: Ásta Júlía Grímsdóttir 18/6 fráköst, Kiana Johnson 15/8 fráköst/10 stoðsendingar/6 stolnir, Hallveig Jónsdóttir 13/5 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir 12/6 fráköst, Helena Sverrisdóttir 11/8 fráköst/9 stoðsendingar, Dagbjört Dögg Karlsdóttir 8, Eydís Eva Þórisdóttir 6.

Fráköst: 29 í vörn, 9 í sókn.

Dómarar: Jóhannes Páll Friðriksson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Birgir Örn Hjörvarsson.


 

Fjölnir 76:83 Valur opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert