„Miklar tilfinningar í spilinu“

Jón Arnór og Matthías Orri Sigurðarson takast á um boltann …
Jón Arnór og Matthías Orri Sigurðarson takast á um boltann í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Arnór Stefánsson lék vel með Val í kvöld í fyrsta leiknum á móti KR í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik en mátti sætta sig við tap gegn sínu gamla liði 98:99. 

„Þetta var langur leikur. Við hefðum getað tekið þetta í venjulegum leiktíma og þeir líka. Þetta er einn af þessum leikjum sem ræðst af smáatriðum hér og þar. Í framlengingunni kom Jordan okkur yfir þegar hann setti niður ógeðslega erfitt skot. Sabin fékk sitt þriggja stiga skot sem var svolítið þægilegt fyrir hann vegna þess að hann vill fara á vinstri höndina, taka „side stepback“ og taka þriggja stiga skot. Þú mátt auðvitað alls ekki gefa færi á þriggja stiga skoti undir þessum kringumstæðum og við klikkuðum þar. Það er bara dæmi um þessi smáatriði sem ég er að tala um og smáatriðin sem skildu liðin að. Við lærum af því og við töpuðum hörkuleik. Auðvitað hefði verið gott að vinna hann en hvað á maður að gera? Við vissum að þetta yrði löng sería og við þurfum að stela sigri í Vesturbænum. Við ætlum að gera það,“ sagði Jón Arnór þegar mbl.is tók hann tali á Hlíðarenda í kvöld. 

Leikurinn var gífurlega spennandi enda réðust úrslitin ekki fyrr en í framlengingu og höfðu liðin skipst á að vera yfir lengi vel í leiknum.  Fyrir hlutlausa var leikurinn mikil skemmtun. Var þetta forsmekkurinn að því sem koma skal í þessari rimmu?

„Það má búast við því. Maður var búinn undir að þetta yrðu hörkuleikir, mikil læti og mikil stemning. Maður vissi að KR-ingarnir yrðu snælduvitlausir með Miðjuna sína [stuðningsmannakjarni KR]. Svo þegar út í leikinn var komið var þetta stál í stál.“ 

Jón Arnór sækir að körfu KR í kvöld.
Jón Arnór sækir að körfu KR í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Arnór mætti ekki einungis uppeldisfélagi sínu í fyrsta skipti í úrslitakeppni heldur eru leikmenn í liði KR eins og Helgi Már Magnússon og Jakob Örn Sigurðarson gamlir vopnabræður Jóns í gegnum alla yngri flokka og öll yngri landslið, fyrir utan meistaraflokkinn í KR og A-landsliðið. Hvernig var fyrir Jón að spila á móti þeim í mikilvægum leik sem þessum? 

„Ég hef þurft að kljást við þá á æfingum alla mína tíð. Þetta er svipað. Mér finnst mjög skemmtilegt að glíma við alvöruleikmenn eins og þá og alvörulið eins og KR. Þetta er mikil áskorun fyrir okkur og miklar tilfinningar í spilinu. Þetta er skemmtileg reynsla og forréttindi. Mér finnst ég vera heppinn að fá að taka þátt í svona rimmu, hvað þá  alveg undir lokin á ferlinum,“ sagði Jón Arnór Stefánsson í samtali við mbl.is en hann skoraði 19 stig í kvöld.  

mbl.is