Erfitt ef þú spilar bara þrjá af fjórum leikhlutum

Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka.
Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka. Eggert Jóhannesson

Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, sagði lið sitt hafa gert sér allt of erfitt fyrir með slæmum fyrsta leikhluta í 45:58 tapi gegn Val í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í körfuknattleik kvenna í kvöld.

„Í grunninn var þetta ágætt í þrjá leikhluta en við gáfum þeim fyrsta leikhlutann. Við gáfum þeim góða forgjöf og það er erfitt að spila á móti Val þegar þú ætlar bara að spila þrjá leikhluta af fjórum,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is eftir leik.

Staðan var 2:18 að loknum fyrsta leikhluta og Haukar þurftu því að elta allan leikinn. „Við gerðum þetta allavega aðeins of erfitt fyrir okkur með þeirri byrjun og við getum það ekki á útivelli á móti Íslandsmeisturunum.

Það þurfum ég og Ingvar [Guðjónsson aðstoðarþjálfari] að taka á okkur. Við greinilega náðum ekki að mótivera liðið rétt. Kannski var spennustigið of hátt eða of lágt þannig að við tökum það líka til okkar.

Í þrjá leikhluta sýndum við réttari karakter varnarlega en náðum ekki að skjóta boltanum nógu vel í kvöld. Við verðum bara að bæta okkur fyrir næsta leik, gera betur í fjóra leikhluta í næsta leik,“ bætti hann við.

Skotnýtingin hjá Haukum var ekki góð í leiknum í kvöld, aðeins 24 prósent. „Já, nýtingin var náttúrlega léleg. Þegar við vorum að fá stoppin og vorum að minnka þetta niður í níu stig í einhvern smá tíma þá vantaði kannski aðeins betri ákvarðanir, sem er eitthvað sem við þurfum bara að fara aðeins yfir, eða að fá 1-2 skot til að detta á þeim tíma.

Þá hefðum við getað náð að snúa þessu við en við náðum því ekki í kvöld og Valur var bara heilt yfir betra í fjóra leikhluta.“

Þrátt fyrir tap í fyrsta leik eru Haukar ekki af baki dottnir fyrir næsta leik liðanna í einvíginu á heimavelli í Hafnarfirði á sunnudaginn kemur. „Já ég ætla að vona það. Ég vona að enginn hafi ætlast til þess að við myndum bara koma hérna á útivöll og labba yfir Val í fyrsta leik.

Þær tóku leik eitt og við erum ennþá með okkar markmið um að vinna þrjá leiki og við þurfum bara að taka næsta leik á sunnudaginn í Ólafssal á Ásvöllum og svo er bara áfram gakk,“ sagði Bjarni að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert