Megum ekki stíga af bensíngjöfinni

Kiana Johnson í baráttu við Þóru Kristínu Jónsdóttur í leiknum …
Kiana Johnson í baráttu við Þóru Kristínu Jónsdóttur í leiknum í kvöld. Arnþór Birkisson

Kiana Johnson, leikmaður Vals, var ánægð með 58:45 sigur liðsins gegn Haukum í fyrsta leik úrslitaeinvígis Íslandsmótsins í körfuknattleik kvenna á heimavelli Valskvenna í kvöld en sagði liðið þó geta spilað betur.

„Á heildina litið fannst mér við spila vel. Við náðum að kreista sigurinn út á hörkunni. Við getum klárlega skoðað leik okkar og unnið að vissum þáttum og lagað.

Við byrjuðum rosalega vel en við slökuðum á klónni eftir það og fórum að slappa af. Við megum ekki láta það gerast. Það er eitthvað sem við ætlum að einbeita okkur að því að laga fyrir næsta leik,“ sagði Kiana í samtali við mbl.is eftir leik.

Valur náði 18:2 forystu í fyrsta leikhluta en meira jafnræði var með liðunum í hinum þremur leikhlutunum. Í þriðja leikhluta komust Haukar betur inn í leikinn og náðu á einum tímapunkti að minnka muninn niður í 9 stig, 42:33.

„Við hægðum bara á okkur. Þetta er bara eins og ef þú ert í bíl og að keyra á 100 kílómetra hraða en svo stígurðu af bensíngjöfinni, byrjar að slappa af og stillir á sjálfstýringu.

Við megum ekki gera það, þetta er mjög gott lið sem getur skotið vel og skorað og einnig varist mjög vel. Þegar við erum úti á velli og erum á skriði verðum við að halda því við,“ sagði hún.

Beðin um að meta næsta leik í Ólafssal á Ásvöllum sagði Kiana:

„Ég held að við munum skjóta betur. Þetta var fyrsti leikur úrslitaeinvígisins og leikmenn eru aðeins stressaðir. Þetta snýst um að róa sig og leyfa leiknum að spilast upp í okkar hendur.

Ég held að það verði skorað meira í næsta leik en að það verði sami ákafi og mikil orka í báðum liðum þar sem verður hart barist. Það er það sem við viljum, þetta er körfubolti og við erum í úrslitum.“

mbl.is